
Hljómsveitin Árstíðir hefur gefið út söngplötuna Vetrarsól og fylgir henni eftir með útgáfutónleikum víðs vegar um landið. Platan inniheldur 12 lög á íslensku sem eiga það flest sameiginlegt að vera samin eða útsett af íslenskum tónskáldum fyrir sönghópa og kóra. „Í tilefni útgáfunnar mun hljómsveitin, í samstarfi við Nótnaveitu Tónlistarmiðstöðvar, gefa út nótur að öllum lögunum á plötunni á heimasíðu Tónlistarmiðstöðvar,“ segir í tilkynningu. Tónleikarnir verða í Akureyrarkirkju í kvöld, Menningarhúsinu Bergi annað kvöld, Blönduóskirkju 6. apríl, Vinaminni við Akraneskirkju 10. apríl og Árbæjarkirkju 13. apríl. Miðar fást á tix.is.