
KA og Þróttur úr Reykjavík eru með undirtökin í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki eftir sigra á heimavelli í fyrstu leikjunum í gærkvöld.
KA vann Aftureldingu örugglega í KA-heimilinu á Akureyri, 3:0, en hrinurnar enduðu 25:20, 25:17 og 25:12.
Þróttur vann Hamar einnig frekar sannfærandi í Laugardalshöllinni, 3:0, og þar enduðu hrinurnar 25:19, 25:17 og 25:20.
Leikir númer tvö fara fram í Mosfellsbæ og Hveragerði á sunnudaginn og þar geta KA og Þróttur tryggt sér sigra í einvígjunum. Komi til oddaleikja fara þeir fram á Akureyri og í Laugardalshöll næsta miðvikudagskvöld.
Fyrstu leikirnir í undanúrslitum kvenna fóru fram í fyrrakvöld og þá vann Afturelding góðan útisigur á Völsungi á Húsavík, 3:1, en KA vann HK á Akureyri, 3:0. Leikir númer tvö fara fram á morgun.