
Íslenska sjónvarpsþáttaröðin Reykjavík Fusion verður heimsfrumsýnd á Cannes Series-hátíðinni sem fer fram í lok apríl. Þáttaröðin er sú fyrsta frá Íslandi sem valin er til frumsýningar á hátíðinni, en hún er framleidd af íslenska fyrirtækinu ACT4 og verður sýnd í Sjónvarpi Símans Premium í haust. Í tilkynningu segir að hátíðin hafi fest sig í sessi sem ein sú virtasta á sviði sjónvarpsefnis. Ólafur Darri Ólafsson og Hera Hilmarsdóttir leika í þáttunum en þeir fjalla um matreiðslumeistara sem kemur úr fangelsi og neyðist til að slá lán hjá undirheimakóngi til að stofna flottasta veitingastað Reykjavíkur. Aðrir leikarar eru m.a. Þröstur Leó Gunnarsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson, Guðjón Davíð Karlsson og Unnur Birna Backman. Höfundar eru Hörður Rúnarsson og Birkir Blær Ingólfsson.