
Bára Gísladóttir kontrabassaleikari og tónskáld hlýtur heiðursverðlaun Carl Nielsen og Anna Marie Carl-Nielsen. Verðlaunin þykja ein virtustu menningarverðlaun Danmerkur.
Í frétt Edition S segir að Bára sé eitt eftirsóttasta tónskáld sinnar kynslóðar en tónlist hennar hefur verið flutt af tónlistarmönnum jafnt sem sinfóníuhljómsveitum. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar eins og til dæmis Ernst von Siemens tónskáldaverðlaunin, Íslensku tónlistarverðlaunin, hæfileikaverðlaun Carl Nielsen og Anne Marie Carl-Nielsen, Reykjavík Grapevine-tónlistarverðlaunin auk þess sem verk hennar VÍDDIR var tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2022. Þá var platan Orchestral Works valin ein af 15 markverðustu plötum ársins 2024 hjá The New Yorker.