
Sýning Jónu Hlífar Halldórsdóttur Alverund verður opnuð í dag kl. 15 í Hafnarborg. „Á sýningunni vinnur Jóna Hlíf með samspil texta og mynda og kannar sköpunarmátt tungumálsins – hvernig það tengir okkur og gerir okkur fært að tjá okkur, auk þess hvernig merking flæðir á milli menningarheima. Þannig tekst hún á við það hvað það þýðir að vera manneskja og hvernig tungumálið mótar skilning okkar á heiminum, hugmyndir okkar um eigið sjálf og veruleika,“ segir í tilkynningu. Jóna Hlíf útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA-gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands árið 2013. Myndlist Jónu Hlífar hefur snúist um að kanna hugmyndir um tíma, verund og ímynd með hliðsjón af lýsingu, rými og framsetningu. Sýningarstjóri er Hólmar Hólm. Sýningin stendur til 25. maí. Opið er alla daga nema þriðjudaga kl. 12-17.