
Bruce Springsteen hefur nú ákveðið að leyfa aðdáendum sínum að njóta sjö nýrra platna sem eru að fullu tilbúnar en hafa aldrei áður verið gefnar út. BBC greinir frá og hefur eftir talsmönnum Sony Music að upptökurnar, sem séu frá árunum 1983-2018, nái yfir stóran hluta ferils Springsteens og veiti því ómetanlega innsýn í líf hans og starf sem listamanns. Þar á meðal eru prufuupptökur af samspili sem leiddi til lagsins „Born in the U.S.A.“ sem varð að einu vinsælasta lagi níunda áratugarins en það kom út árið 1984 og skaut Springsteen rækilega upp á stjörnuhimininn. „Ég hef spilað þessa tónlist fyrir sjálfan mig og nána vini í mörg ár,“ sagði Springsteen í yfirlýsingu, spurður út í „týndu“ plöturnar. „Ég er ánægður með að þið fáið nú loksins tækifæri til að hlusta á þær. Ég vona að þið hafið gaman af þeim.“