
Úr bæjarlífinu
Jónas Erlendsson
Vík í Mýrdal
Uppskerutími er núna hjá kórfólki landsins þar sem alls konar tónleikar eru í boði. Nýlega var Karlakór Rangæinga með mjög vel heppnaða tónleika í Leikskálum í Vík í Mýrdal, en stjórnandi kórsins er Einar Þór Guðmundsson. Sumardaginn fyrsta verður Kammerkór Tónskóla Mýrdælinga með tónleika í Víkurkirkju, stjórnandi sem fyrr Alexandra Chernyshova, og 1. maí kemur svo Sinfoníuhljómsveit Íslands með tónleika í íþróttahúsinu í Vík, þar sem kammerkórinn mun syngja með.
Eftir einstaklega góðan vetur virðist vorið komið, tún eru orðin hvanngræn og allur gróður að lifna við. Vonandi hefnist það ekki með köldu páskahreti. Hvað sem því líður er veturinn alltaf styttri þegar vel viðrar.
...