
DeAndre Kane átti stórleik fyrir Grindavík þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með endurkomusigri gegn Íslandsmeisturum Vals í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í Smáranum í Kópavogi í gær. Grindavík vann einvígið 3:1 en liðin mættust í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins á síðustu leiktíð þar sem Valur hafði betur í oddaleik.
Leiknum í gær lauk með átta stiga sigri Grindavíkur, 82:74, en Kane skoraði 26 stig, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar í leiknum.
Valsmenn leiddu með tíu stigum í hálfleik, 47:37, en Grindvíkingum tókst að minnka forskot Valsmanna í þrjú stig í þriðja leikhluta, 62:59. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta komst Grindavík yfir í fyrsta sinn í leiknum, 66:65, og þeir létu forystuna ekki af hendi eftir það.
...