
Sigurbjörg Unnur Jóhannesdóttir fæddist á heimili foreldra sinna í Reykjavík 2. desember 1929. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 8. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru hjónin Jóhannes Ásgeirsson verkamaður, f. 1891, d. 1967, og Þorbjörg Friðjónsdóttir húsmóðir, f. 1902, d. 1962.
Systkini Unnar eru Kristján Trausti sem fæddist árið 1927 og lést á öðru aldursári, Guðrún Sigríður, f. 1932, og Sóley, f. 1937.
Unnur giftist 5. júlí 1952 Vali Jóhannssyni prentara, f. 11. júní 1918, d. 3. nóvember 1984. Þeirra börn eru: 1) Trausti, f. 1949, fyrrverandi maki Guðrún Birta Hákonardóttir, f. 1954. Börn þeirra eru Andri, f. 1982, og Tinna, f. 1984. 2) Erla, f. 1952, maki Jóhann Guðmundsson, f. 1948. Börn þeirra eru Orri Valur, f. 1982, Unnur Ýr, f. 1984, og Daði, f. 1986. 3) Árni Jóhannes, f. 1954, maki Halldóra Harðardóttir, f. 1957. Börn þeirra eru Valur, f. 1977, Jónas Hörður, f. 1980, Brynjar, f. 1988, og Björg, f. 1993. 4) Edda, f. 1958, maki Gunnar Heimir Ragnarsson, f. 1954. Börn þeirra eru Guðbjörg Dögg, f. 1976, Anna Margrét, f. 1980, Ragnar Heimir, f. 1983, og Dagný, f. 1985. Langömmubörnin eru 24.
Unnur gekk í Austurbæjarskóla, lauk þar barnaskólaprófi og einum vetri í gagnfræðaskóla. Eftir það vann hún við afgreiðslu í nokkur ár en eftir að hún hóf búskap var hún heimavinnandi. Þegar börnin voru uppkomin starfaði hún við ræstingar í Háskóla Íslands til rúmlega sjötugs.
Unnur bjó alla tíð í Reykjavík, þar af tæp 60 ár í Vesturbænum, en sem telpa var hún mörg sumur hjá ættingjum sínum vestur í Dölum og frá því hún var þrítug og fram á níræðisaldur dvaldi hún meira og minna á sumrin í sumarbústað fjölskyldunnar í Laugardal með börnum, ömmubörnum og langömmubörnum.
Unnur sótti námskeið í málaralist og postulínsmálun. Hún naut þess einnig að prjóna og lesa og ráða krossgátur. Eftir hana liggja málverk og lopapeysur víða.
Útför Unnar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 15. apríl 2025, klukkan 11.
Dögg mín veistu, það fer heill heimur með ömmum, sagði vinkona mín við
mig þar sem ég var í ekkasogunum í leigubíl í miðju Kanada, fimm þúsund
kílómetra að heiman. Bíllinn stefndi á flugvöllinn í Calgary og ég
freistaði þess að komast heim til fjölskyldunnar sem allra fyrst, nýbúin að
fá af því fréttir að elsku amma væri dáin.
Það er ekki auðvelt að byrja að skrifa um ömmu Unni þegar hún er nýfallin
frá. Ömmu sem var ætíð full af æðruleysi, svo sterk og ótrúlega
lausnamiðuð. Hún var aldrei upptekin af því sem var erfitt, hindranir voru
ekki til í hennar orðabók heldur bara lausnir. Amma var líka ótrúlega
sjálfstæð. Hún missti afa árið 1984 og bjó ein upp frá því og allt til
síðasta dags. Hún hafði alltaf tíma og endalausa orku í að að prjóna, mála,
leysa krossgátur, mála kort og leggja kapal. Mér leiðist aldrei, sagði
hún ósjaldan.
Hún var ekki bara amma mín, hún var rokkstjarnan í boðunum mínum. Vinkonur
mínar hópuðust að henni, þáðu prjónaráð og hlustuðu á skemmtisögur frá því
í gamla daga. Hún var börnunum mínum ávallt góð og gaf þeim heillaráð. Hún
hrósaði Katrínu jafnan fyrir að vera góð stóra systir og við Kristófer Loga
sagði hún alltaf: Spilaðu lagið. Hann vissi um leið hvað hún átti við og
spilaði fyrir hana Þannig týnist tíminn. Helst tvisvar í röð.
Það fylgdi henni mikið af fólki og það var ávallt gestkvæmt hjá henni í
Vesturbænum. Síminn hringdi oft á dag. Ömmu gat ég hringt í dag og nótt, ég
var aldrei að trufla hana og aldrei að vekja hana. Alltaf velkomin, nótt
sem dag. Uppi í bústað var ekki fylgst með klukkunni: Við sofum þegar við
erum þreytt og borðum þegar við erum svöng, sagði hún og bætti við að í
sveitinni eru börn úti að leika, sama hvernig viðrar.
Við Erling fórum með henni í sumar og tókum upp hlaðvarp þar sem hún sagði
okkur frá æsku sinni á mölinni, frá sumrunum í sveitinni, frá því hvernig
hún afgreiddi fátækt fólk úr Pólunum og hermönnunum sem steiktu skyr. Amma
hafði ótrúlegt minni og sagði frá tímum sem voru svo ólíkir þeim sem við
lifum í dag. Eftir hlaðvarpstökurnar fórum við með henni í heimsókn á
Bessastaði, þar sem við hittum forsetahjónin og gengum um híbýlin. Þá
keyrðum við um Reykjavík og hún benti okkur á húsin sem hún hafði búið í á
Grettisgötu, Þórsgötu, smáíbúðahverfinu, nesinu og Víðimelnum. Þetta var
ótrúlega verðmætur dagur sem við áttum saman og nú þegar amma er farin er
minningin enn dýrmætari.
Amma mín var merkileg kona, ein sú merkilegasta sem ég þekkti. Hún reyndi
margt á langri og góðri ævi. Ég þakka fyrir að hafa fengið að njóta
návistar hennar svona lengi. Við sem elskuðum hana svo heitt getum huggað
okkur við að eiga hafsjó minninga um bestu konu í heimi. Ég trúði því
alltaf að hún yrði eilíf, sem kannski er ekki svo skrítið því hún var full
af lífskrafti fram á síðasta dag. En ég veit að amma er ekki farin.
Minningin lifir áfram í þeim sögum sem hún sagði mér. Hún mun alltaf vera
hluti af mér.
Þegar ég fékk fréttirnar um að hún væri ekki lengur hér á meðal vor,
brotnaði eitthvað inn í mér. Hjarta mitt kramdist og heimurinn fórst. Það
er svo skrítið að geta ekki lengur rennt við hjá ömmu með þetta helsta:
garn, reykta ýsu, mjólk og smjör. Hún situr við sjónvarpið og horfir á
glæpamyndir, prjónar, málar, ræður krossgátur eða allt þetta fernt og biður
mig svo að taka með mér heim að minnsta kosti 20 kort sem hún hefur
málað.
Með ömmu minni fer heill heimur.
Takk fyrir alla gleðina elsku besta amma Unnur, ég sakna þín meira en tárum
tekur.
Þín,
Dögg.