Sig­ur­björg Unn­ur Jó­hann­es­dótt­ir fædd­ist á heim­ili for­eldra sinna í Reykja­vík 2. des­em­ber 1929. Hún lést á Land­spít­al­an­um Foss­vogi 8. apríl 2025.

For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Jó­hann­es Ásgeirs­son verkamaður, f. 1891, d. 1967, og Þor­björg Friðjóns­dótt­ir hús­móðir, f. 1902, d. 1962.


Systkini Unn­ar eru Kristján Trausti sem fædd­ist árið 1927 og lést á öðru ald­ursári, Guðrún Sig­ríður, f. 1932, og Sól­ey, f. 1937.


Unn­ur gift­ist 5. júlí 1952 Vali Jó­hanns­syni prent­ara, f. 11. júní 1918, d. 3. nóv­em­ber 1984. Þeirra börn eru: 1) Trausti, f. 1949, fyrr­ver­andi maki Guðrún Birta Há­kon­ar­dótt­ir, f. 1954. Börn þeirra eru Andri, f. 1982, og Tinna, f. 1984. 2) Erla, f. 1952, maki Jó­hann Guðmunds­son, f. 1948. Börn þeirra eru Orri Val­ur, f. 1982, Unn­ur Ýr, f. 1984, og Daði, f. 1986. 3) Árni Jó­hann­es, f. 1954, maki Hall­dóra Harðardótt­ir, f. 1957. Börn þeirra eru Val­ur, f. 1977, Jón­as Hörður, f. 1980, Brynj­ar, f. 1988, og Björg, f. 1993. 4) Edda, f. 1958, maki Gunn­ar Heim­ir Ragn­ars­son, f. 1954. Börn þeirra eru Guðbjörg Dögg, f. 1976, Anna Mar­grét, f. 1980, Ragn­ar Heim­ir, f. 1983, og Dagný, f. 1985. Lang­ömmu­börn­in eru 24.


Unn­ur gekk í Aust­ur­bæj­ar­skóla, lauk þar barna­skóla­prófi og ein­um vetri í gagn­fræðaskóla. Eft­ir það vann hún við af­greiðslu í nokk­ur ár en eft­ir að hún hóf bú­skap var hún heima­vinn­andi. Þegar börn­in voru upp­kom­in starfaði hún við ræst­ing­ar í Há­skóla Íslands til rúm­lega sjö­tugs.


Unn­ur bjó alla tíð í Reykja­vík, þar af tæp 60 ár í Vest­ur­bæn­um, en sem telpa var hún mörg sum­ur hjá ætt­ingj­um sín­um vest­ur í Döl­um og frá því hún var þrítug og fram á níræðis­ald­ur dvaldi hún meira og minna á sumr­in í sum­ar­bú­stað fjöl­skyld­unn­ar í Laug­ar­dal með börn­um, ömmu­börn­um og lang­ömmu­börn­um.


Unn­ur sótti nám­skeið í mál­aralist og postu­líns­mál­un. Hún naut þess einnig að prjóna og lesa og ráða kross­gát­ur. Eft­ir hana liggja mál­verk og lopa­peys­ur víða.


Útför Unn­ar fer fram frá Guðríðar­kirkju í dag, 15. apríl 2025, klukk­an 11.

Dögg mín veistu, það fer heill heim­ur með ömm­um, sagði vin­kona mín við mig þar sem ég var í ekka­sog­un­um í leigu­bíl í miðju Kan­ada, fimm þúsund kíló­metra að heim­an. Bíll­inn stefndi á flug­völl­inn í Cal­gary og ég freistaði þess að kom­ast heim til fjöl­skyld­unn­ar sem allra fyrst, ný­bú­in að fá af því frétt­ir að elsku amma væri dáin.
Það er ekki auðvelt að byrja að skrifa um ömmu Unni þegar hún er ný­fall­in frá. Ömmu sem var ætíð full af æðru­leysi, svo sterk og ótrú­lega lausnamiðuð. Hún var aldrei upp­tek­in af því sem var erfitt, hindr­an­ir voru ekki til í henn­ar orðabók held­ur bara lausn­ir. Amma var líka ótrú­lega sjálf­stæð. Hún missti afa árið 1984 og bjó ein upp frá því og allt til síðasta dags. Hún hafði alltaf tíma og enda­lausa orku í að að prjóna, mála, leysa kross­gát­ur, mála kort og leggja kap­al. Mér leiðist aldrei, sagði hún ósjald­an.
Hún var ekki bara amma mín, hún var rokk­stjarn­an í boðunum mín­um. Vin­kon­ur mín­ar hópuðust að henni, þáðu prjónaráð og hl­ustuðu á skemmti­sög­ur frá því í gamla daga. Hún var börn­un­um mín­um ávallt góð og gaf þeim heillaráð. Hún hrósaði Katrínu jafn­an fyr­ir að vera góð stóra syst­ir og við Kristó­fer Loga sagði hún alltaf: Spilaðu lagið. Hann vissi um leið hvað hún átti við og spilaði fyr­ir hana Þannig týn­ist tím­inn. Helst tvisvar í röð.
Það fylgdi henni mikið af fólki og það var ávallt gest­kvæmt hjá henni í Vest­ur­bæn­um. Sím­inn hringdi oft á dag. Ömmu gat ég hringt í dag og nótt, ég var aldrei að trufla hana og aldrei að vekja hana. Alltaf vel­kom­in, nótt sem dag. Uppi í bú­stað var ekki fylgst með klukk­unni: Við sof­um þegar við erum þreytt og borðum þegar við erum svöng, sagði hún og bætti við að í sveit­inni eru börn úti að leika, sama hvernig viðrar.
Við Erl­ing fór­um með henni í sum­ar og tók­um upp hlaðvarp þar sem hún sagði okk­ur frá æsku sinni á möl­inni, frá sumr­un­um í sveit­inni, frá því hvernig hún af­greiddi fá­tækt fólk úr Pól­un­um og her­mönn­un­um sem steiktu skyr. Amma hafði ótrú­legt minni og sagði frá tím­um sem voru svo ólík­ir þeim sem við lif­um í dag. Eft­ir hlaðvarpstök­urn­ar fór­um við með henni í heim­sókn á Bessastaði, þar sem við hitt­um for­seta­hjón­in og geng­um um hí­býl­in. Þá keyrðum við um Reykja­vík og hún benti okk­ur á hús­in sem hún hafði búið í á Grett­is­götu, Þórs­götu, smá­í­búðahverf­inu, nes­inu og Víðimeln­um. Þetta var ótrú­lega verðmæt­ur dag­ur sem við átt­um sam­an og nú þegar amma er far­in er minn­ing­in enn dýr­mæt­ari.
Amma mín var merki­leg kona, ein sú merki­leg­asta sem ég þekkti. Hún reyndi margt á langri og góðri ævi. Ég þakka fyr­ir að hafa fengið að njóta návist­ar henn­ar svona lengi. Við sem elskuðum hana svo heitt get­um huggað okk­ur við að eiga haf­sjó minn­inga um bestu konu í heimi. Ég trúði því alltaf að hún yrði ei­líf, sem kannski er ekki svo skrítið því hún var full af lífs­krafti fram á síðasta dag. En ég veit að amma er ekki far­in. Minn­ing­in lif­ir áfram í þeim sög­um sem hún sagði mér. Hún mun alltaf vera hluti af mér.
Þegar ég fékk frétt­irn­ar um að hún væri ekki leng­ur hér á meðal vor, brotnaði eitt­hvað inn í mér. Hjarta mitt kramd­ist og heim­ur­inn fórst. Það er svo skrítið að geta ekki leng­ur rennt við hjá ömmu með þetta helsta: garn, reykta ýsu, mjólk og smjör. Hún sit­ur við sjón­varpið og horf­ir á glæpa­mynd­ir, prjón­ar, mál­ar, ræður kross­gát­ur eða allt þetta fernt og biður mig svo að taka með mér heim að minnsta kosti 20 kort sem hún hef­ur málað.
Með ömmu minni fer heill heim­ur.
Takk fyr­ir alla gleðina elsku besta amma Unn­ur, ég sakna þín meira en tár­um tek­ur.

Þín,

Dögg.