
Líkkista Frans páfa var í gær flutt til Péturskirkjunnar, þar sem það verður til sýnis fram að útför páfans á laugardaginn. Yfirvöld í Rómaborg sögðu að um 20.000 manns hefðu lagt leið sína á Péturstorgið hið minnsta í gær til þess að votta páfanum virðingu sína. Myndaðist löng biðröð inni í Péturskirkjunni og þurfti fólk að bíða í um eina og hálfa klukkustund til þess að sjá lík páfans. Náði biðröðin alla leið út fyrir Páfagarð og inn í sjálfa Rómaborg.
Öryggisgæsla hefur verið stóraukin í borginni vegna útfararinnar, en áætlað er að um 250.000 manns muni fara á Péturstorgið á laugardaginn þegar útför páfans fer fram. Þá verða um 100 fyrirmenni og þjóðarleiðtogar inni í Péturskirkju á meðan athöfnin fer fram.