
Ríkisútvarpið hættir að sjónvarpa fréttum klukkan 22 á kvöldin frá og með 2. júlí. Þá verða kvöldfréttirnar sýndar klukkan 20 í stað 19 en sú breyting tekur gildi 24. júlí. Frá þessu greinir Rúv. en breytingarnar voru kynntar starfsmönnum fréttastofunnar á fundi í gær.
Í byrjun júlí hefst EM kvenna í fótbolta og verða kvöldfréttirnar þá tímabundið sendar út klukkan 21 á kvöldin, líkt og gert var í fyrra þegar EM karla í fótbolta var haldið. Frá og með 24. júlí verða fréttirnar sýndar í sjónvarpinu klukkan 20, sem verður þá hinn nýi venjulegi sýningartími.
„Fréttaneysla hefur breyst gríðarlega síðustu ár og við ætlum að laga okkur að þeim breytta veruleika. Með því að draga úr sjónvarpsframleiðslu getum við lagt meiri áherslu á fréttir á stafrænum miðlum þar sem flestir neyta þeirra,“ er haft eftir Heiðari Erni Sigurfinnssyni fréttastjóra Ríkisútvarpsins í frétt Rúv.