Menntó Nemendur óttast margir að hefðirnar falli í gleymskunnar dá.
Menntó Nemendur óttast margir að hefðirnar falli í gleymskunnar dá. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Forsetar nemendafélaga í framhaldsskólum eru ósáttir við frumvarp um breytingar á lögum um framhaldsskóla sem myndi gera félögunum skylt að hlýða skólastjórnendum í einu og öllu. Þeir lýsa áhyggjum af „barnavæðingu“ menntaskólans

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Forsetar nemendafélaga í framhaldsskólum eru ósáttir við frumvarp um breytingar á lögum um framhaldsskóla sem myndi gera félögunum skylt að hlýða skólastjórnendum í einu og öllu. Þeir lýsa áhyggjum af „barnavæðingu“ menntaskólans.

Nýtt frumvarp menntamálaráðherra kveður á um að nemendur eigi „að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks í öllu því sem skólann varðar, þar á meðal í starfi á vegum nemendafélaga framhaldsskóla“. Nemendur eru margir ósáttir og telja að þarna sé vegið að sjálfstæði nemendafélaga. Þeir lýsa áhyggjum af því að útgefið efni sæti enn frekari ritskoðun.

„Mér finnst svolítið ógnvekjandi að gefa þeim lagalega heimild til að skipta sér af öllu sem viðkemur nemendafélaginu,“ segir Óskar Breki Bjarkason forseti NFVÍ. Hann sýnir því skilning að skólinn vilji fá að ritskoða sumt útgefið efni en segir þó mikilvægt að nemendafélögin fái að starfa án óþarfa afskipta skólastjórnenda.

„Nemendafélög eru skipuð af nemendum og starfa fyrir nemendur. Skólastjórnendur eru ekki hluti af félagslífinu og ættu ekki að vera með fullkomið vald yfir því,“ segir Elín Edda Arnarsdóttir, inspector scholae í MR.

Ritskoðun þegar allnokkur

Skólastjórnendur hafa þegar mikil ítök í nemendafélögunum enda starfa þau á vegum skólans. Ritskoðun er auk þess þegar orðin veruleg í útgáfum þeirra að sögn formannanna. Þau segjast vilja eiga í góðri samvinnu við sína skólastjórnendur en finnst eins og starfsemi félaganna sé í auknum mæli að færast til skólastjórnenda.

„Það er eins og unglingum sé treyst minna fyrir hlutum. Þetta er hálfgerð barnavæðing menntaskóla og menntaskólanema,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, forseti Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Á þar einnig við þær menningarlegu breytingar sem hafa á síðustu árum átt sér stað í menntaskólum landsins, þar sem busanir eru liðin tíð og orðið „busi“ jafnvel orðið bannorð innan veggja skóla. Svæsið grín í tímaritum eða myndbandsþáttum líðst heldur ekki eins vel og það gerði á árum áður. Hann óttast að hefðir deyi út.

„Þetta er orðið svolítið þreytt,“ segir Arnaldur Halldórsson forseti NFMH sem kveðst þó ekki hafa sérstakar áhyggjur af breytingunum. Logi Hjörvarsson, fráfarandi forseti Keðjunnar í Kvennaskólanum, segist ekki skilja hvaðan ákallið um þessar breytingar kemur. „Mér finnst eins og það hafi ekki verið talað nóg við ungmennin,“ segir Logi.

Höf.: Agnar Már Másson