Þorlákshöfn Liðlega 2.000 íbúar en nærri 3.000 í sveitarfélaginu öllu.
Þorlákshöfn Liðlega 2.000 íbúar en nærri 3.000 í sveitarfélaginu öllu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarsjóður Ölfuss var eftir síðasta ár gerður upp með nærri 1.677 millj. króna afgangi. A-hlutinn, það er hinn almenni rekstur sveitarfélagsins, var í plús sem nemur 1.267 millj. kr. og hefur þeim fjármunum, að því er segir í skýringum með…

Sveitarsjóður Ölfuss var eftir síðasta ár gerður upp með nærri 1.677 millj. króna afgangi. A-hlutinn, það er hinn almenni rekstur sveitarfélagsins, var í plús sem nemur 1.267 millj. kr. og hefur þeim fjármunum, að því er segir í skýringum með uppgjörinu, verið varið til uppbyggingar ýmissa innviða og niðurgreiðslu skulda.

Heildareignir A- og B-hluta eru rúmlega 10 ma. króna, bókfært eigið fé sveitarfélagsins í lok síðasta árs var 4,5 ma. króna og er eiginfjárhlutfall um 60%. Skatttekjur voru 2.727 millj. kr. og jukust um nærri 10% milli ára. Þar kemur til íbúafjölgun og nýjar byggingar, sem fasteignagjöld eru innheimt af. Alls skilaði sá gjaldstofn sveitarfélaginu rúmum 600 millj. kr. í fyrra.

Skuldaviðmið Ölfuss hefur lækkað undanfarin ár, þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Viðmiðið 2023 var 60,07% en fór í fyrra í 16,5%.

Íbúar í Ölfusi eru nú 2.950 og fjölgaði um rúmlega 5% á árinu 2024. Er sú fjölgun í samræmi við taktinn á síðustu árum. Útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram, sbr. að nú eru 230 íbúðir í byggingu í Þorlákshöfn.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi segir stöðuna þar góða og vaxarsprotarnir séu margir, það er í starfsemi sem tengist höfninni. Einnig fiskeldi, en ætlað er að verja allt að 500 milljörðum á næstu sjö árum til verkefna á því sviði. sbs@mbl.is