
Hersveitir Taívans æfðu í fyrsta skipti í gær notkun á langdrægu eldflaugakerfi, svonefndu HIMARS. Kerfi þetta er bandarískt að uppruna og þykir bæði nákvæmt og banvænt á vígvellinum. Sama vopnakerfi er notað gegn innrásarliði Rússlands í Úkraínu.
Undanfarna áratugi hafa stjórnvöld í Taívan lagt mikla áherslu á uppbyggingu hersins og innleiðingu á nýjum og höggþungum vopnakerfum. Ástæðan er ótti við útþenslustefnu Kína og hugsanlega innrás þeirra inn í Taívan.
Bandarískir sérfræðingar voru viðstaddir æfinguna og veittu þeir tækniaðstoð og leiðsögn við skotprófanir. Hershöfðingi Taívansshers segir prófanir hafa gengið með ágætum, þó hafi reynst erfitt að samræma eldflaugaskotin. Er því þörf á frekari þjálfun.