
Til átaka kom í Istanbúl í Tyrklandi þegar upp úr sauð á fundi mótmælenda og þurftu lögreglumenn m.a. að skjóta gúmmískotum inn í hópinn til að ná tökum á ástandinu. Fólkið var komið saman til að mótmæla handtöku á skopmyndateiknara sem teiknað hafði afskræmingu af Múhameð spámanni og birtist teikningin í tímaritinu LeMan. Mótmælendur segja vegið að frelsi teiknarans til að tjá sig og að myndin sé í raun ekki af spámanninum sjálfum. Undir það tekur ritstjórn blaðsins, segir hún teikninguna umræddu hafa verið rangtúlkaða.
Talið er að lögregla hafi haft afskipti af 200 til 300 mótmælendum. Einhverjar tilkynningar hafa borist um áverka, þó ekki alvarlega.
Stjórnvöld og borgaryfirvöld segja teikninguna ögrun.