Stórafmæli Gunnar varð áttræður á árinu og fagnar því með tónleikum.
Stórafmæli Gunnar varð áttræður á árinu og fagnar því með tónleikum. — Morgunblaðið/Ásdís

Tónleikaþrennu sellóleikarans Gunnars Kvaran verður framhaldið á laugardaginn, 21. september, kl. 16, þegar boðið verður upp á ókeypis sólótónleika í Dómkirkjunni í Reykjavík. Eru tónleikarnir aðrir af þeim þrennum sem Gunnar heldur á árinu í tilefni af áttræðisafmæli sínu í janúar.

Segir í tilkynningu að fluttar verði þrjár fyrstu sellósvítur Jóhanns Sebastians Bach og að tónleikarnir séu helgaðir minningu kærs vinar Gunnars, Hauks Guðlaugssonar, orgelleikara og fyrrverandi söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. „Gunnar hefur verið þekktur fyrir fjölbreytt verkefni og metnaðarfullt starf í þágu ýmissa hópa samfélagsins sem ekki hafa alla jafna sama aðgang að tónleikum og aðrir. Hann stofnaði tónleikaröðina Töframáttur tónlistar, sem hefur starfað síðan 2007, og verið þar í góðu samstarfi við til að mynda Geðhjálp, hin ýmsu elliheimili, fangelsi og aðrar stofnanir.“