„Ég held að við getum verið róleg alveg fram í miðjan nóvember,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, við Morgunblaðið spurður hvenær megi vænta næsta eldgoss á Sundhnúkagígaröðinni.

Kvika safnast upp á sama svæði og áður undir Svartsengi og landris hagar sér eins og fyrir síðustu tvö eldgos, segir Benedikt Gunnar. „Það er að lengjast á milli atburða, sem á eftir að búa til lengra tímabil óvissu,“ bætir hann við og bendir á að sífellt safnist meira upp af kviku á milli eldgosa.

„Þetta er endurtekið efni. Við sjáum mjög svipað ferli og eftir síðasta gos,“ segir Benedikt Gunnar enn fremur í samtali við Morgunblaðið.