Norska strengjatríóið Ssens Trio kemur fram á tónleikum á vegum Kammermúsíkklúbbsins í Norður­ljósasal Hörpu, sunnudaginn 22. september klukkan 16. Segir í tilkynningu að á efnisskránni verði flutt tríó eftir Vínarklassíkerana Haydn og Beethoven,…
Ssens Trio Henninge Landaas, Sølve Sigerland, Ellen Margrete Flesjø.
Ssens Trio Henninge Landaas, Sølve Sigerland, Ellen Margrete Flesjø. — Ljósmynd/Bård Gundersen

Norska strengjatríóið Ssens Trio kemur fram á tónleikum á vegum Kammermúsíkklúbbsins í Norður­ljósasal Hörpu, sunnudaginn 22. september klukkan 16. Segir í tilkynningu að á efnisskránni verði flutt tríó eftir Vínarklassíkerana Haydn og Beethoven, pólsk-rússneska tónskáldið Mieczysław Weinberg ásamt nýju tónverki eftir norsk-víetnamska tónskáldið Önnu Linh Nguyen Berg.

Þá eru tónleikarnir hinir fyrstu af sex á 68. starfsvetri Kammermúsíkklúbbsins sem var stofnaður árið 1957 og hefur allar götur síðan staðið fyrir reglulegu tónleikahaldi í Reykjavík. Strengjatríóið Ssens var stofnað árið 2014 í Ósló og er það skipað fiðluleikaranum Sølve Sigerland, víóluleikaranum Henninge Landaas og sellóleikaranum Ellen Margrete Flesjø. Þremenning­arnir komu áður fram á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í nóvember 2021 þegar þeir fluttu verk eftir Beethoven, Schubert og Hafliða Hallgrímsson.