Vinstri menn eru gjarnan á því að allir eigi að vera jafnir, nema sumir, þeir eigi að vera jafnari. Hrafnar Viðskiptablaðsins fjalla um nýjasta dæmi þessa í pistli í vikunni og segja: „Píratar eru komnir í kosningaham enda hafa þeir gefið út að þeir stefni að því að fá meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn í komandi kosningum.

Grasrót Pírata hefur lengi talað fyrir því að engum stjórnmálamanni sé hollt að sitja lengur á Alþingi en tvö kjörtímabil. Það kemur því hröfnunum ekkert á óvart að Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hinn ferðaglaði þingmaður, hafi lýst sig reiðubúin til setu sitt þriðja kjörtímabil á Alþingi. Björn Leví hefur lýst því yfir á Alþingi að takmarkanir ættu að vera á fjölda kjörtímabila þingmanna og nefnt tvö kjörtímabil í þeim efnum. Er þetta einmitt ástæðan fyrir að Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy létu af þingmennsku á sínum tíma.

...