Létt hefur verið yfir leikmönnum Liverpool á þessu hausti.
Létt hefur verið yfir leikmönnum Liverpool á þessu hausti. — AFP/Paul Ellis

Þá er „landsleiðindahléið“ loks að baki og augu sparkelskra beinast á ný að ensku úrvalsdeildinni. Réttnefndur stórleikur er á dagskrá í dag, sunnudag, þegar topplið deildarinnar, Liverpool, tekur á móti Chelsea, sem hóf umferðina í fjórða sæti, á heimavelli sínum, Anfield. Liverpool hefur rokið upp úr rásblokkunum á þessu hausti undir stjórn nýs þjálfara, Hollendingsins Arnes Slots, og hefur unnið sex af fyrstu sjö leikjum sínum. Sóknin hefur verið öflug, 13 mörk, og vörnin ekki síðri, en Rauði herinn hefur aðeins fengið á sig tvö mörk til þessa. Það gæti breyst í dag; aðeins ríkjandi meistarar, Manchester City, hafa gert fleiri mörk en Chelsea til þessa, en lærisveinar Enzos Marescas hafa skorað 16 mörk í fyrstu sjö leikjunum. Talsverð batamerki hafa verið á þeim blástökkum í haust og forvitnilegt verður að sjá hvernig þeim vegnar gegn toppliðinu.