Biblían verður alls staðar á vegi manns

Biblían hefur haft margvísleg áhrif í kristnum þjóðfélögum, líka menningarleg, og beinast rannsóknir á áhrifasögu að því lífi sem textar Biblíunnar hafa lifað meðal almennings og túlkunum í bókmenntum og listum. Dr. Gunnlaugur er prófessor við Háskóla Íslands í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins og hefur einkum beint sjónum sínum að Gamla testamentinu við rannsóknir á áhrifasögu Biblíunnar.

Áhuga sinn á Gamla testamentinu þakkar dr. Gunnlaugur framhaldsnámi í hebresku undir leiðsögn Þóris Kr. Þórðarsonar, sem á þeim tíma var prófessor í Gamla testamentisfræðum við Háskóla Íslands. Var Þóri lagið að hrífa nemendur með sér og blása þeim áhuga í brjóst. "Ég hafði stundað hebreskunám fyrir byrjendur og þegar Þórir bauð upp á framhaldsnámskeið, skráðum við okkur þrír. Oft sagði ég við hann í gríni að ég hefði dagað uppi í Gamla testamentinu, því hinir tveir voru hættir þegar ég mætti í annan hebreskutímann. Því hafi ég ekki getað gert honum það að láta kúrsinn niður falla. Niðurstaðan varð sú að ég las hebresku með Þóri árin sex sem ég nam við deildina. Það var stórkostlegur munaður að vera í einkatímum hjá slíkum manni," segir hann. Dr. Gunnlaugur segir að mörgum finnist boðskapur Gamla testamentisins framandi og að þar fari mikið fyrir alls kyns lögum og helgisiðum, sem vissulega sé rétt. "En boðskapur þess er dreginn saman á nokkrum stöðum, sem auðveldar lesandanum mjög lífið. Spámaðurinn Míka flytur til dæmis boðskap sem oft hefur verið kallaður samnefnari fyrir boðskap spámanna Gamla testamentisins, það er Mík 6.8: Hann hefur sagt þér maður, hvað gott sé. Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum." Útlendingurinn og ekkjan Hann segir ríka áherslu lagða á stuðning við lítilmagnann í Gamla testamentinu, sem tíðrætt verði um réttindi smælingjanna. Sérstaklega eru nefnd ekkjan, munaðarleysinginn og útlendingurinn sem býr meðal okkar. "Sjúkrahús, skólar og hjálp til þeirra sem minna mega sín hafa ætíð fylgt kristninni og hvað því viðkemur er ljóst að samfélag okkar hvílir að verulegu leyti á Biblíulegum grunni, þótt menn hafi kannski gleymt því margir hverjir. Kristur skerpir kærleikskröfuna að vísu í Fjallræðunni, en hugmyndin um náungakærleikann kemur fyrst fyrir í Gamla testamentinu," segir hann. Dr. Gunnlaugur segir menningaráhrif kristindómsins óumdeild og nefnir skrif Jóhanns Hannessonar, sem var kristniboði í Kína 1939- 1953, og síðar prófessor við guðfræðideildina. "Eftir heimkomuna skrifaði hann grein, sem birtist upphaflega í kristilegu stúdentablaði hinn 1. desember árið 1953, þar sem spurt var hvort kristindómurinn myndaði menningu. Jóhann var vel heima í trúarbragðafræðum, sem hann kenndi síðar, og svar hans var afdráttarlaust og játandi. Efist einhver um þessa staðreynd, sagði hann, ætti sá hinn sami að ráða sig í sjómennsku með viðkomu í Arabíu, Indlandi og Kína, koma svo heim aftur og skoða sig um. Svo vitnað sé beint í Jóhann er hin kristna mannmeðferð menningarsérkennið sem skarpast stingur í stúf við heiðni. Heiðnin fyrirlítur fátæklinginn, betlarann, útlendinginn og jafnvel hinn vinnandi mann og þetta viðhorf loðir enn við víða í menningu Austurlanda. Í samfélaginu við Krist eru allir bræður og kristindómurinn kennir að sérhver maður sé dýrmætur í guðs augum," segir hann. Hágreiðslustofa og höfuðstöðvar SÞ Upp á síðkastið hefur dr. Gunnlaugur leitað að beinum áhrifum Gamla testamentisins í menningunni, bókmenntum og listum og segir að þau verði alls staðar á vegi þess sem er með augu og eyru opin. Hann nefnir aftur boðskap spámannsins Míka en áletrun úr Mík 4.3 er grafin á styttu framan við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York og stendur því nánast sem einkunnarorð samtakanna. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. Ekki eru allar tilvitnanir í Gamla testamentið jafn grafalvarlegar. Því til sannindamerkis vendir dr. Gunnlaugur kvæði sínu í kross og nefnir hárgreiðslustofu sem nýlega hafi vakið athygli hans, Samson og Dalílu. Fjallað er um kraftakarlinn Samson í 16. kafla Dómarabókar, og Dalílu, sem ginnti hann og sveik og skar af honum hárið svo hann missti krafta sína. Nefnir Gunnlaugur að nafngiftin sé kannski ekki að öllu leyti heppileg, einhverjum gæti komið í hug að brögð væru í tafli. Eitt þekktasta dæmið sem dr. Gunnlaugur nefnir er þjóðsöngurinn, sem byggður er á 90. Davíðssálmi, og ortur var í tengslum við þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, veturinn 1873-74. Þar segir meðal annars: Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Þú hrífur þá burt sem, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras. Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar. Selir og stríðsmenn Faraós Dr. Gunnlaugur nefnir líka skáldsögu Þórbergs Þórðarsonar Steinarnir tala sem hann segir sýna vel hvernig frásögn Gamla testamentisins af undrinu við hafið og björgun hebresku þrælanna á flótta þeirra frá Egyptalandi, 2. Mósebók 14-15, hefur lifað með íslenskri alþýðu gegnum aldirnar. "Þar segir Þórbergur frá Guðnýju ömmu sinni og einkennilegri sögu er hún sagði honum. Hún var af því þegar Ísraelslýður flúði úr þrældóminum í Egyptalandi. Þá bjó Guð til þurrar traðir handa honum gegnum Hafið rauða, af því að þetta var gott fólk. En stríðsmenn faraós komu hlaupandi á eftir því og ætluðu að drepa það. En þegar þeir voru komnir út í traðirnar, þá hleypti Guð sjó í þær, og allir stríðsmennirnir drukknuðu, en Ísraelsfólkið slapp á þurrt land. Og amma mín raulaði einhverja vísu, sem þetta var í: Og Faraó með sinn heimskuher í Hafinu rauða drekkti sér. "Síðar lýsir Þórbergur því sem honum fannst furðulegast í sögu ömmu sinnar, það að stríðsmenn Faraós hefðu breyst í seli, sem fylltu öll veraldarhöfin, og hvílíkum viðbjóði hann hafi fyllst yfir að fólk skyldi leggja sér til munns afturgengin líkin af þessum morðhundum. Hét Þórbergur sér því að éta aldrei sel framar. En ég át hann nú samt næst þegar hann veiddist. Ég hef líklega ekki verið nógu trúaður á selasögu ömmu minnar , skrifar hann. Frásögn sem þessi er dæmi um það líf sem Biblíutextarnir hafa lifað með íslenskri þjóð gegnum aldirnar og þau margvíslegu áhrif sem þeir hafa haft í ævisögum, skáldsögum, þjóðsögum, ljóðlist, í gegnum predikanir og fleira," segir hann. Hirðir og hjörð Einn vinsælasti texti Gamla testamentisins, bæði hérlendis og úti um hinn kristna heim, er 23. sálmur Saltarans sem hefst á orðunum Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta . Í honum kemur fyrir líkingin um hirði og hjörð, sem dr. Gunnlaugur hefur fjallað sérstaklega um í erindi. "Fjöldi skálda hefur ort út frá Saltaranum, til dæmis Jón Þorsteinsson píslarvottur og Hallgrímur Pétursson. Það kemur kannski ekki á óvart, en sálmur 23 er samt sem áður eini sálmur Saltarans sem Hallgrímur Pétursson yrkir út af. Fleiri dæmi eru Bjarni Thorarensen, Valdimar Briem, Bjarni Eyjólfsson, sem ekki var þekkt skáld heldur einn forstöðumanna KFUM, Matthías Johannessen ritstjóri og skáld og Ingvar Gíslason fyrrverandi menntamálaráðherra," segir hann. Dr. Gunnlaugur segir einnig að fermingarbörn, sem á annað borð velja sér einkunnarorð úr Gamla testamentinu, velji sálm 23 undantekningalítið, þótt flestir kjósi texta Nýja testamentisins. Reiknast honum til að um 20% fermingarbarna velji sálm 23. "Og að því marki sem vitnað er í einhvern texta Biblíunnar í minningargreinum, þar sem meira er vitnað í ljóð, hefur þessi texti algera sérstöðu. Jafnframt er notkun þessa sálms Saltarans í tékknesku óskarsverðlaunamyndinni Kolya sláandi dæmi." Þá segir dr. Gunnlaugur að Ljóðaljóðin, sem fjalla um ástir karls og konu en guðfræðingar túlkuðu löngum allegorískt sem samband Krists og kirkjunnar, hafi reynst uppspretta tónsmíða. Til dæmis Páli Ísólfssyni og tónskáldi af yngri kynslóðinni, Hróðmari Inga Sigurbjörnssyni. Ennfremur hefur sálmur 137, sem fjallar um útlegð Júdamanna í Babýlon, verið Íslendingum fjarri ættlandinu hugleikinn, til dæmis Vestur-Íslendingum. "Stephan G. Stephansson Klettafjallaskáld orti ljóð út frá þessum sálmi sem hann kallaði Í Babýlon við vötnin ströng. Björn B. Jónsson, einn af frumkvöðlum hins evangelísk-lúterska kirkjufélags Íslendinga í Vesturheimi, vitnaði í þetta ljóð á 25 ára félagsins árið 1910. "Fjarlæg ættjörð varð hugum manna heilög og kær, aldrei hefur Ísland verið heitar elskað af börnum sínum. Fjarlægðin breiddi hjúp yfir ættlandið. Oss fór sem gyðingum forðum: "Vér sátum og grétum er við minntumst Zíonar. Á pílviðina hengdum vér upp gígjur vorar, hvernig áttum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?" Íslendingar í Danmörku hafa líka vitnað í þennan sálm þótt fjarlægðin sé ekki eins mikil," segir hann. Dr. Gunnlaugur nefnir loks tilvik þar sem texti Gamla testamentisins verður tilefni til misnotkunar. Í 3. Mósebók 18 kafla er fjallað um kynlíf og þar segir í 6. versi: Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra . Segir hann að 50 Íslendingar hafi verið teknir af lífi 1270-1870 fyrir blóðskömm á grundvelli þessa texta og að slík notkun Biblíunnar ætti að verða okkur víti til varnaðar. Loksins í landinu helga Fyrr á þessu ári átti dr. Gunnlaugur loks kost á því að ferðast til landsins helga, sem hann gerði í félagi við Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild, ásamt eiginkonum þeirra. "Mér fannst vanta mikið upp á mína menntun, að hafa aldrei komið til Ísrael. Við heimsóttum landið um páska, eina allra mestu trúarhátíð gyðinga, sem þeir halda reyndar til þess að minnast frelsunar hinna herbresku þræla frá Egyptalandi. Það var afskaplega áhrifamikið að verða vitni að hversu áhrif hátíðarinnar voru gríðarlega mikil á samfélagið allt, ekki síst mataræðið. Aðkomumanni í Ísrael dylst engan veginn að hve miklu marki trúin og hinn Biblíulegi andi svífa yfir vötnum og móta samfélagið allt," segir hann. Því til staðfestingar nefnir hann tilvik þar sem Shimon Peres í forsætisráðherratíð sinni svaraði gagnrýni í Knesset með umdeildum hætti. "Peres hafði orðið fyrir mikilli gagnrýni á þinginu og svaraði eitthvað á þá leið að vera ekki einn um að verða á mistök. Slíkt ætti við um alla fyrirrennara hans, meira að segja Davíð konung. Duldist engum að hann væri að vísa til ástarsambands Davíðs konungs við Batsebu, konu Úría Hetíta, og það eitt að hann skyldi dirfast að beina spjótum sínum að sjálfum Davíð konungi, fremstum konunga, gekk guðlasti næst og leiddi næstum til stjórnarkreppu í Ísrael." Dr. Gunnlaugur keyrði meðal annars frá Jerúsalem til Jeríkó, en borgin fyrrnefnda er í 700 metra hæð yfir sjávarmáli. "Jeríkó er sá staður á jarðríki sem liggur dýpst, 300 metra undir sjávarmáli. Leiðin er ekki nema 20 kílómetrar, afar brött og liggur um hrjóstrugt landslag. Mér kom í hug ein fallegasta dæmisaga Jesú, um miskunnsama Samverjann, sem féll í ræningjahendur á þessari leið, og sá fyrir mér að ekki hafi verið mjög notalegt að vera þarna einn á ferð," segir hann. Og kannski eru Íslendingar ekki jafn ólíkir Ísraelsmönnum og ætla mætti. Dr. Gunnlaugur klykkir út með sögu frá námsárum sínum í Lundi af samfélagi íslenskra námsmanna á sænskri grund. "Svíarnir töluðu oft um Íslendingana sem gyðinga norðursins; þeir héldu svo mikið saman, væru með þessar hátíðir sem mönnum fannst einhverjar furðulegar trúarhátíðir, til dæmis þorrablót, og ætluðu síðan allir aftur heim til fyrirheitna landsins. Mér fannst þetta ekki svo fráleitt, þótt tæpast sé Biblíulegum áhrifum að þakka," segir dr. Gunnlaugur að lokum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: