Líknarár hann enn þá gefur

Tímatal er með ýmsum hætti. Almanaksár hefst fyrsta janúar, skólaár í ágústbyrjun, reikningsár kann að eiga sér upphaf í enn annan tíma. Kirkja Krists hefur sinn hátt á í þessu efni. Kirkjuárið gengur í garð á fyrsta sunnudegi í aðventu, fjórum vikum fyrir jól. Þá verða þau tímamót, sem séra Valdimar Briem kveður um: "Líknarár hann enn þá gefur, ár, sem háð ei breyting er, ár, er sumar ávallt hefur, ávöxt lífs að færa þér" sbr. Sálmabók íslenzku kirkjunnar nr. 57.

Fyrri hluti hvers kirkjuárs nefnist "hátíðahlutinn". Þar er að finna þrjár höfuðhátíðir kristinna manna, jól, páska og hvítasunnu. Nú er lokið hinni löngu röð "sunnudaga eftir Þrenningarhátíð" og annar tími runninn upp: Jól og nýár fara í hönd, því næst þrettándinn og sunnudagar eftir þrettánda, þá níuviknafasta, dymbilvika og páskar en að svo búnu gleðidagar eða sunnudagar eftir páska og loks hvítasunna og Þrenningarhátíð. Er hér þó aðeins stiklað á stóru. Á fyrsta degi nýs kirkjuárs samfögnum vér hvert öðru og biðjum sjálfum oss og samferðamönnum vorum blessunar um allar ókomnar stundir. Megi árið verða þér "líknarár", lesandi minn góður, náðarár guðlegrar návistar. Sú náð er öllu ofar að sannreyna Guð við hjartarætur og son hans Jesúm Krist, hinn krossfesta og upprisna. Megi þér hlotnast sú gæfa í launkofa sálar þinnar. Aðventa Vikurnar fjórar fyrir jól nefnast "aðventa", en það merkir "tilkoma", þ.e.a.s. tilkoma Krists. Fyrsta guðspjall dagsins í dag er að finna hjá guðspjallamanninum Matteusi (Matt. 21:1-9). Þar greinir frá innreið Jesú í Jerúsalem, en þeirri frásögn lýkur með því, að múgurinn, sem á undan honum fór og eftir fylgdi, hrópaði: "Blessaður sé sá, sem kemur í nafni Drottins." "Blessaður sé sá, sem kemur." Þannig hljóðar grunntónn aðventunnar. Vér væntum Krists hins komanda í dag og næstu Drottinsdaga. "Sjá ég stend við dyrnar og kný á" segir hinn upprisni í Opinberun Jóhannesar (Op. 3:20), en þau orð eru meðal ritningarlestra fyrsta sunnudags í aðventu. Og áfram heldur frelsarinn í leyndardómi. "Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér." "Raust, dyr, kvöldverður", allt eru þetta táknleg orð. Merking þeirra er sú, að ævarandi Guð vill í syni sínum, Jesú Kristi, nema land í brjósti þínu og gjörast eitt með þér um tíma og um eilífð. Aðventan er sá tími ársins, sem kirkjan hefur sérstaklega valið til að vekja athygli þína á þessu. Svo er reyndar um allar stundir "líknarársins" aðrar. Góði hirðirinn Eitt af meistaraverkum íslenzkra bókmennta er sagan "Aðventa" eftir Gunnar skáld Gunnarsson. Aldrei rennur þessi tími ársins svo, að ég ekki hafi hönd á þeirri bók og lesi hana mér til uppbyggingar og sálubótar. Ég er ekki einn um þetta. Margir hafa sagt mér, að þeir gjöri hið sama. Minnisstæðar eru mér morgunstundir á jólaföstu í Skálholtsskóla, er við hjónin störfuðum þar. Árum saman las einn úr hópi kennaranna "Aðventu" Gunnars fyrir samverkamenn sína og nemendur um þetta leyti vetrar. Ég gleymi ekki þeirri athygli, sem jafnan skein úr augum ungmennanna undir lestrinum. Í "Aðventu" segir höfundur frá fjallamanninum Benedikt. Hann gengur inn í sveitina sína á fyrsta sunnudag í aðventu áleiðis til heiða. Erindi hans á fjöll svo síðla hausts er það að leita uppi sauðkindur, sem orðið hafa eftir að loknum öllum leitum, og koma þeim heim og á hús, áður en veturinn læsir klakaklóm sínum um öræfi og byggðir. Næstu vikur er Benedikt á fjöllum. Margt drífur á daga hans. Hann lendir í ýmsum mannraunum. Sagan er beinlínis "spennandi" og full ástæða til að mæla með henni á þeim forsendum einnig við þá, er ekki hafa lesið hana. Í sögulok kemur Benedikt fyrir góðra manna tilstuðlan heim með það fé, sem hann hefur náð saman. Endirinn er þannig ánægjulegur og veldur engum vonbrigðum. Bent hefur verið á, að "Aðventa" Gunnars Gunnarssonar sé útlegging á orðum Jesú um "góða hirðinn" í 10. kapítula Jóhannesar guðspjalls. "Ég er góði hirðirinn," segir Jesús og bætir við: "Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina." Hið sama gjörir Benedikt í sögu Gunnars. Vér mannanna börn erum líkust þeirri hjörð, sem hér greinir frá. Kristur, góði hirðirinn, kemur til vor og leitar oss uppi, knýr dyra í sálum vorum og gengur inn þar sem upp er lokið. Eftir er að vita, hvort vér tökum undir með Jerúsalemsbúum forðum og segjum: "Blessaður sé sá, sem kemur í nafni Drottins." "Í dag" Þriðja guðspjall fyrsta sunnudags í aðventu er að finna hjá guðspjallamanninum Lúkasi, fjórða kapítula, versunum 14 til 22. Þar segir frá því, að Jesús kom til Nazaret, gekk á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og stóð upp og las söfnuðinum eftirfarandi orð úr bók Jesaja spámanns: "Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins." Síðan lukti Jesús aftur bókinni og tók að tala til þeirra: "Í dag hefur rætzt þessi ritning í áheyrn yðar." Á þennan veg kynnir Jesús áheyrendum sínum, að með tilkomu hans renni Guðs ríki upp meðal mannanna á jörðu. Þau tíðindi verða "í dag" segir hann. Jafn skjótt og hann, sem er Messías, hinn smurði Drottins, frelsari mannanna, tók til við að predika, hljómaði hinn gleðilegi boðskapur um umskipti allra hluta. Það fagnaðarerindi kveður við upp frá því og til heimsslita. Sömu gleðitíðindi er mér boðið að heyra í dag ­ og þér.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: