Dagar ósýrðu brauðanna

Í Nýja testamentinu er greint frá því hvernig Jesús og lærisveinar hans minntust brottfararinnar úr Egyptalandi með síðustu kvöldmáltíðinni. Tæpum tvöþúsund árum síðar komst Sigrún Birna Birnisdóttir að því, er hún kynnti sér páskahald gyðinga í Ísrael, að þar eru dagar ósýrðu brauðanna enn í heiðri hafðir.

Á föstudaginn langa halda gyðingar hátíðlegan einn mesta hátíðisdag sinn Pesach eða páskahátíðina til minningar um brottförina úr Egyptalandi. Þessar tvær hátíðir eru reyndar haldnar um svipað leyti ár hvert enda var Kristur krossfestur á páskahátíðinni, sem í Nýja testamenntinu er nefnd hátíð hinna óseyddu brauða. Hátíð gyðinga getur þó fallið á hvaða vikudag sem er en kristnir menn miða einnig við vikudagana, fimmtudag, föstudag og sunnudag í páskahaldi sínu og því er dagamunur á því hvernig hátíðirnar falla saman. Gyðingar annars staðar en í Ísrael neyta reyndar páskamáltíða tvö kvöld í röð, í ár bæði á föstudags- og laugardagskvöldi. Sú hefð að neyta tveggja páskamáltíða á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar höf og álfur skildu virkilega að fólk í ólíkum heimshlutum. Fyrir daga nútímatækni var erfitt að samræma tímatalið og þar sem það er gyðingum mikils virði að sérhver gyðingur hafi tækifæri til að neyta máltíðarinnar í félagsskap annarra gyðinga og að allir gyðingar neyti hennar á sama tíma hvar sem er í heiminum tóku gyðingar utan Ísraels til þess ráðs að neyta slíkra máltíða tvö kvöld í röð til að tryggja það að þeir neyttu hennar á sama tíma og gyðingar í Ísrael. Ekkert hveiti fáanlegt Páskahátíð gyðinga er frelsishátíð en einnig minnast menn við þetta tækifæri þeirra þjáninga sem gyðingar gengu í gegn um í þrældómi í Egyptalandi og á hinu langa ferðalagi til frelsis. Heiti hátíðarinnar Pesach þýðir að fara framhjá (samanber enska heitið Passover) og vísar til þess er Guð refsaði Egyptum í 10. sinn og banaði frunburðum þeirra en fór fram hjá húsum gyðinga. Það sem einkennir hátíðina einna helst er alger útlegð hveitis og hvers kyns hveitivara. Þetta hveitibann á rætur sínar að rekja til þeirrar trúar að brottförina úr Egyptalandi hafi borið svo brátt að að gyðingarnir hafi ekki haft tíma til að láta brauðdeig rísa áður en þeir héldu af stað og því þurft að borða flatt brauð. Í minningu þessa eru borðaðar svokallaðar matzakökur þá viku sem hátíðin stendur en þær eru flatar og svo til bragðlausar. Þá er bannað að neyta eða hafa hveitivörur til sýnis í Ísrael yfir hátíðirnar og í samræmi við það selur Ísraelsríki allar hveitibirgðir sínar í táknrænni athöfn fyrir hátíðina og kaupir þær síðan aftur viku síðar. Það ganga þó ekki allir jafn langt og í mörgum verslunum láta kaupmenn sér nægja að breiða yfir hveitivörur þannig að þær sjáist ekki. Dagana fyrir hátíðina eru heimili trúaðra þrifin hátt og lágt með það fyrir augum að hreinsa burt allt hveiti. Kvöldið fyrir hátíðina er síðan haldin hátíðleg athöfn þar sem heimilisfaðirinn leitar síðustu hveitiagnanna með logandi ljósi. Fyrir þessa athöfn er algengt að brauðbiti sé falinn einhvers staðar þannig að hægt sé að ljúka athöfninni með því að brenna hann ásamt annarri hveitivöru heimilisins að morgni næsta dags. Einnig skipta margir trúaðir algerlega um borðbúnað yfir hátíðirnar til að koma í veg fyrir snertingu við nokkra hveitiögn. Þeir sem ekki hafa efni á slíku geta hins vegar farið með borðbúnað sinn út á torg þar sem komið er upp sérstökum pottum með sjóðandi vatni til að þvo borðbúnaðinn í. Fyrirmæli í fjórtán liðum Hápunktur hátíðahaldanna, sem standa í sjö daga, er páskamáltíðin sem á hebresku nefnist Seider eða Samkvæmt fyrirmælum og er framkvæmd samkvæmt nákvæmum fyrirmælum sem er að finna í kverinu Haggadah. Samkvæmt þessum fyrirmælum er athöfninni skipt í fjórtán liði og enn þann dag í dag mun vera farið nákvæmlega eftir þeim, a.m.k. fram að máltíðinni, á flestum heimilum gyðinga. Að máltíðinni lokinni mun hins vegar víða vera misbrestur á því að haldið sé áfram samkvæmt fyrirmælunum. Liðirnir fjórtán eru eftirfarandi: 1. liður: Vínið blessað, gert ráð fyrir a.m.k. 4 glösum á mann. 2. liður: Hendur þvegnar. 3. liður: Grænmeti, yfirleitt sellerí, stungið í vatn og borðað. 4. liður: Þrjár Matzakökur settar á sérstakan "sederdisk" og sú í miðið brotin. 5. liður: Sagan um brottförina úr Egyptalandi lesin. 6. liður: Hendur þvegnar. 7. liður: Farið með bæn og lofgjörð til Guðs. 8. liður: Matzakaka blessuð. 9. liður: Bragðað á beiskum mat t.d. piparrót. 10. liður: Borðuð matzakaka með piparrót. 11. liður: Máltíð. 12. liður: Borðuð Matzakaka. 13. liður: Þakkargjörð. 14. liður: Bænir. Auk allra þeirra kræsinga sem hvarvetna eru bornar fram við máltíðina verður einn ákveðinn diskur, svokallaður "sederdiskur", að vera til staðar við máltíðina. Á honum eru sex gerðir matar: matzakaka sem tákn brauðsins sem aldrei reis, egg sem tákn um frjósemi Ísraels, vængur sem tákn um hendi Guðs sem bjargaði þjóðinni úr ánauð, sulta sem tákn steypunnar sem gyðingar unnu með í ánauðinni, piparrót, eða annað súrt grænmeti, sem tákn þess biturleika sem þeir bjuggu þar við og sellerí tákn vorsins. Elía kominn í heimsókn Fjölmargar hefðir hafa skapast í kring um páskamáltíðina og hefur hún mjög mismunandi blæ eftir uppruna fólks. Þannig er það t.d. hefð meðal Ashkenazi-gyðinga, sem ættaðir eru frá Austur-Evrópu, að stinga fingri í vín og færa einn víndropa yfir á disk fyrir hverja þá plágu sem Guð lagði á Egypta um leið og þær eru nefndar í sögunni. Á meðal Sefardi-gyðinga, sem ættaðir eru frá Norður-Afríku, er hins vegar heilu vínglasi og fullri vatnskönnu hellt í fat þegar hver plága er nefnd. Þá er það hefð meðal þeirra sem ættaðir eru frá Marokkó að halda "sederdiskinum" með táknunum sex yfir höfðum allra viðstaddra fyrir máltíðina. Á sumum heimilum er annar helmingur matzakökunnar sem brotin er fyrir máltíðina falinn og börnin í hópnum látin leita að henni að máltíðinni lokinni. Það barn sem finnur kökuna selur hana síðan aftur stjórnanda athafnarinnar og verður hann að greiða fyrir hana það verð sem upp er sett, því án kökunnar getur hann ekki haldið athöfninni áfram. Það er því til mikils að vinna fyrir börnin sem gjarnan eru búin að ákveða að biðja um reiðhjól eða eitthvað í þá áttina. Önnur hefð sem einnig höfðar til yngri kynslóðarinnar er byggð á þeirri þjóðtrú að Elía komi við á hverju heimili til að taka þátt í máltíðinni. Í bókmenntum gyðinga eru margar sögur til um það þegar Elía kemur til máltíðarinnar. Það er viðtekin venja að bjóða hungruðum að deila máltíðinni með sér og flestar þessara sagna segja frá bláfátæku fólk sem býður ókunnugum ferðamanni til máltíðarinnar og því hvernig gesturinn, sem reynist vera Elía, launar þeim örlætið. Við páskamáltíðir nútímans er gjarnan lagt á borð fyrir Elía og víni helt í glas fyrir hann. Þvínæst bankar einhver undir borðið og yngsta barnið er sent til dyra með þeim orðum að nú sé Elía kominn. Einhver viðstaddra drekkur síðan vínið úr glasinu og þegar barnið kemur til baka er því sagt að Elía hafi skotist inn á meðan það var í burtu og drukkið vínið. Þá eru einstakir þættir athafnarinnar skýrðir út fyrir börnunum jafnóðum og þeir eru framkvæmdir og með söngvum. Í einum þeirra syngur yngsta barnið : "Hvað er öðruvísi í kvöld en önnur kvöld?" og viðstaddir svara: "Öll önnur kvöld borðum við bæði brauð og matza en í kvöld borðum við bara matza." Barnið syngur: "Hvað er öðruvísi í kvöld en önnur kvöld?" og viðstaddir svara: "Öll önnur kvöld borðum við bæði súrt og sætt grænmeti en í kvöld borðum við bara súrt." Barnið syngur: "Hvað er öðruvísi í kvöld en önnur kvöld?" og viðstaddir svara: "Öll önnur kvöld dýfum við bara einu sinni en í kvöld dýfum við tvisvar." Barnið syngur: "Hvað er öðruvísi í kvöld en önnur kvöld?" og viðstaddir svara: "Öll önnur kvöld borðum við bæði sitjandi og liggjandi út á hlið en í kvöld borðum við bara liggjandi út á hlið." Að þessu fyrsta kvöldi hátíðarinnar loknu taka við vikuhátíðahöld sem bæði einkennast af hveitileysi og vori í lofti. Þessa viku myndast víða mannþröng við sjávarsíðuna og í almenningsgörðum enda er fólk þá meira eða minna í fríi. Að hátíðinni lokinni myndast hins vegar víða ös þar sem þjóðarrétturinn falafel í pítubrauði er loksins fáanlegur á ný eftir hveitilausa daga ósýrðu brauðanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: