Píslarsagan skynjuð upp á nýtt

Um páskana flytur Kór Langholtskirkju Mattheusarpassíuna eftir Jóhann Sebastian Bach. Verkið er eitt mesta stórvirki tónlistarsögunnar og ásamt Jóhannesarpassíunni stærsta og þekktasta tónverk Bachs. Hulda Stefánsdóttir fjallar um tónleikana og ræðir við stjórnandann, Jón Stefánsson, og kórsöngvarann og sóknarprestinn séra Jón Helga Þórarinsson.

Mattheusarpassían verður að þessu sinni flutt á þrennum tónleikum í Langholtskirkju; á skírdag, föstudaginn langa og nk. laugardag, 11. apríl, kl. 16 hvern dag. Passían tekur hátt á þriðju klukkustund í flutningi. Hljóðfæraleikarar eru 40 og kórarnir tveir, 90 manna Kór Langholtskirkju og 50 manna Gradualekór unglinga upp að 18 ára aldri. Einsöngvarar eru þau Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Rannveig Fríða Bragadóttir, Bergþór Pálsson, Eiríkur Hreinn Helgason, Stephen Brown og Michael Goldthorpe, sem fer með hlutverk guðspjallamannsins. Stjórnandi er Jón Stefánsson. Á tungumáli barokksins stendur passía fyrir tónverk sem tekur fyrir á dramatískan hátt síðustu kvöldmáltíðina, svik Júdasar, fangelsun, réttarhöld og krossfestingu Krists. Passían er sungin en þó ekki sviðsett eins og óperan. Einsöngvarar og kór syngja hlutverk þeirra sem fram koma í píslarsögunni. Sögumaður er guðspjallamaðurinn. Milli hinna eiginlegu atburða eru sungnar aríur sem byggja á og bæta við þema verksins. Mattheusarpassía Bachs er samin árið 1727. Þetta er mikið verk og óumdeilanlega eitt mesta stórvirki tónlistarsögunnar ásamt Jóhannesarpassíunni. Mattheusarpassían féll í gleymskunnar dá við andlát tónskáldsins, eins og nær öll verk Bachs. Þögnin er ekki rofin fyrr en 80 árum síðar þegar ungt tónskáld, Felix Mendelssohn, uppgötvar Mattheusarpassíuna og flytur á tónleikum. Æ síðan hefur passían hljómað með reglubundnum hætti á páskahátíð lúterstrúarmanna og víða hefur skapast sérstök hefð fyrir flutningi verksins. Kór Langholtskirkju hefur áður flutt Mattheusarpassíuna, árið 1992. Hún heyrðist fyrst í fullri lengd hér á landi árið 1982 þegar Pólýfónkórinn flutti verkið undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar. Áhersla á trúarlega túlkun verksins Rúm klukkustund er fram að fyrstu sameiginlegu æfingu hljómsveitar og kórs þegar stjórnandinn, Jón Stefánsson, gefur sér tíma fyrir stutt spjall við blaðamann. Það er ekki laust við að kominn sé skrekkur í hann, enda fáir dagar til stefnu. Jón segir að þó sé mikill munur á því að flytja verkið öðru sinni samanborið við hið fyrsta. "Áður fór mikill tími í að undirbúa sig og læra verkið. Núna get ég notað tímann betur í boðskapinn og túlkun á trúarlegu innihaldi verksins. Og það kemur oft fyrir á hverri æfingu að manni rennur kalt vatn milli skins og hörunds." Uppistaða tónverksins er að sjálfsögðu Mattheusarguðspjallið en samstarfsmaður Bachs við smíðarnar var skáldið Picander sem lagði honum til eigin ljóð um þessa sömu atburði auk þess sem Bach kaus að setja inn í verkið nokkur þekkt sálmalög þess tíma. Passían er því verulega margbrotin í samsetningu og allri gerð og skiptir miklu máli við flutning Mattheusarpassíunnar að áheyrendur hafi undir höndum upplýsingar um efnislega framvindu verksins. "Picander er undir mjög sterkum áhrifum píetismans eða heittrúarinnar. Textinn er tilfinningahlaðinn og hann einkennir mikill trúarhiti og einlægni," segir Jón. "Loks eru það sálmalög og sum þeirra þekkjum við enn í dag; Ó, höfuð dreyra drifið og Á hendur fel þú honum, textar sem eru gæddir þessari sömu innlifun, en verkið í heild sinni er alveg makalaus samsetning." "Upplifun á við spennandi stórmynd" Sóknarpresturinn, séra Jón Helgi Þórarinsson, er einnig meðlimur í kórnum og blandar sér nú í samræðurnar. Brátt kemur í ljós að með kórnum syngur einnig eiginkona hans, Margrét Einarsdóttir. Séra Jón Helgi á að baki söngnám og segir að það veiti sér mikla ánægju að fá að syngja með kórnum auk þess sem það styrki tengsl sín við tónlistarstarfið í kirkjunni. "Upplifunin á Mattheusarpassíunni er ekki ólík því að horfa á stórmynd á borð við Titanic. Það er svo margt að gerast í sögunni að hún heldur manni hugföngnum og þessir tæpu þrír tímar líða furðufljótt," segir séra Jón Helgi. "Það er ekki nokkur vafi að þetta er mikil trúarleg reynsla fyrir þann sem boðskapurinn er einhvers virði, sem er sá stóri hluti landsmanna sem kristnin hefur mótað. Áheyrendur skynja píslarsöguna alveg upp á nýtt." Tónlist er stór þáttur í öllu safnaðarstarfi Langholtskirkju og þá ekki síst kórastarfið, en nú starfa einir sex kórar við kirkjuna. Fyrstan skal telja sjálfan Kór Langholtskirkju en meðlimir hans eru nú um 90. Kammerkór Langholtskirkju er sprottinn úr aðalkórnum. Í Gradualekórnum eru um 50 börn og unglingar upp að 18 ára aldri. Kórskóli Langholtskirkju hefur verið starfandi um nokkurt skeið og kór yngri barna á aldrinum 3 til 7 ára. Loks er það kór eldri félaga úr Kór Langholtskirkju og þar er áhuginn síst minni, því á stofnfund kórsins í febrúar mættu 60 áhugasamir kórsöngvarar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: