Sigurhátíð lífsins

Krossinn var ekki endalok Jesú," segir Sigur björn biskup Einarsson í bók sinni Haustdreif um, "heldur nýtt upphaf, nýr sáttmáli, nýtt, skapandi máttarverk Guðs, opinberað í upprisunni." Þetta eru orð að sönnu. Páskarnir eru sigurhátíð lífsins yfir dauðanum. "Dauðinn dó, en lífið lifir," segir í kunnum sálmi. Í hverfulleika lífsins getum við leitað halds og trausts í þeirri vissu, að Jesús lét lífið á krossinum fyrir alla menn. Fagnaðarboðskapurinn, sigur lífsins yfir dauðanum, er kjarninn í helgi páskanna. Föstudagurinn langi, píslarganga Krists og krossfesting hans á Golgata eru á hinn bóginn vitnisburðir um breyzkleika mannanna, sem eru hinir sömu í dag og fyrir tvö þúsund árum. Dómarar, sem dæmdu Krist, hermenn, sem pyntuðu hann, og lýður sem heimtaði Barrabas lausan eiga sér hliðstæður með öllum kynslóðum, einnig okkar eigin. Styrjaldir 20. aldarinnar og margs konar hörmungar, sem þjóðir heims hafa leitt hver yfir aðra ­ sem einstaklingar á líðandi stundu leiða hver yfir annan ­ bera þessum breyzkleika fjölmörg, átakanleg og sorgleg vitni. Mannlegt eðli er samt við sig þótt ytri aðstæður fólks hafi breytzt til hins betra, einkum á þessari öld tækni og vísinda. En hvarvetna heims um ból má einnig finna hið gagnstæða, kærleikann, sem Kristur boðaði. Kristin kenning hefur með margvíslegum hætti sett mark sitt á samfélög manna, menningu og viðhorf. Þessa sjást merki í löggjöf þjóða, almannatryggingum, heilbrigðisþjónustu og margs konar mannúðarstarfi, m.a. fjölþjóðlegu hjálparstarfi. Kærleiksboðskapur kristninnar segir og til sín í samskiptum fólks, ekki sízt þegar óvæntir atburðir og ytri aðstæður kalla á samstöðu þess og samhjálp. Það þekkjum við Íslendingar, sem byggjum harðbýlt land þar sem náttúruhamfarir eru hluti af lífsreynslu kynslóðanna. Í þessu sambandi verður heldur ekki komizt hjá því að minna á leit mannsins að tilgangi og fegurð í tilverunni. Þar sem maðurinn rís hvað hæst í þessari fegurðarleit, í listsköpun og -túlkun, bókmenntum, myndverkum og tónlist, verður árangurinn ekki skýrður með líkamlegum þörfum, heldur fyrst og fremst með Guðsneistanum í sálu hans. Sigurbjörn biskup Einarsson segir í Haustdreifum, sem fyrr er vitnað til: "Páskarnir hans [Krists] eru eilífgild yfirlýsing, óhagganlegt sigurorð hans: Ég lifi. Og nú er það sælt að hugsa til þess að mega áfram eiga vitund, líf, tilveru um endalausar aldir, sem þó verða aldrei annað en ein eilíf andrá fullkominnar, ólýsanlegrar lífsnautnar í ríki þeirrar elsku, sem brauzt í gegnum allar víglínur hins illa á páskum. Þá var það stríð unnið, sem markar endanlegan sigur í styrjöldinni, þó að enn sé barizt og myrkrið á flótta sínum máttugt og ægilegt. Það er dæmt. Og þá vil ég ekki láta myrkrið eiga mig, dauðans dæmda myrkur. Ég vil játast lífinu. Það er trú, kristin trú, páskatrú að taka sigur Guðs gildan og láta sigrast af honum, sem hefur lykla dauðans og heljar og lifir um aldir alda." Framundan er vorið þegar hækkandi sól vekur gróðurríkið til nýs lífs af vetrarsvefni. Þessi árstíð fellur vel að boðskap páskanna, sigurhátíðar lífsins yfir dauðanum: Kristur, sem er ljós heimsins, sólin í hugarheimi og trúarlífi fólks, leiðir það frá lífi til lífs. Þessi boðskapur hefur fyllt huga skáldsins og þjóðskörungsins Hannesar Hafsteins, fyrsta ráðherra okkar [1904], þegar hann lofar Guð vors lands í eftirfarandi ljóðlínum: Sólunni meiri er sálin, og sálnanna faðir ert þú. Sálirnar saman þú leiðir um sólfegri, leiftrandi brú, brú frá lífi til lífs; til lífs, sem ei mannvitið skilur, lífs, sem þú áttir um eilífð, en ennþá dauðinn oss hylur. Sannlega sú kemur stund, að vér sjáum, skynjum og reynum, endalaus ógrynni dýrðar, sem opnast ei dauðlegum neinum. En dauðlegir eru þeir einir, sem ei vilja Drottin sjá, og skortir vit til að vilja, og viljann: sigur að fá. Morgunblaðið árnar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra og slysalausra páska.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: