Lausn úr viðjum

Páskaegg og páskaliljur setja svip á umhverfi okkar Íslendinga næstu dagana enda meðal helstu táknmynda páskanna víða um hinn kristna heim. Páskaeggin eiga að vísa til hins óvænta, nýja lífs en einnig til lausnar ungans úr viðjum eggsins, páskaliljur tjá gleðina með lit sínum. En hvað er á bak við þessar táknmyndir, hið nýja líf og hina skínandi gleði? Sumir myndu segja að það væri vorið, páskarnir væru fyrst og fremst vorhátíð. Og sá skilningur á páskunum er að einhverju leyti í anda þessarar elstu hátíðar sem við höldum. En á páskum er slegið á marga strengi, þeir eru annað og meira en vorhátíð. Í hinum gyðing- kristna trúararfi voru þeir frá upphafi hátíð hins óvænta, hátíð óvæntrar lífsvonar, jafnvel mætti kalla þá frumhátíð mannréttindanna. Vorið kemur reglubundið aftur og aftur en hið óvænta getur komið hvenær sem er.

Hver þekkir ekki negrasálminn "Go down Moses: farðu suður til Egyptalands, Móse, og segðu faraó gamla að láta þjóð mína lausa"? Þessi negrasálmur átti sinn þátt í að vekja frelsisvitund með svörtum þrælum vestanhafs. Og hann átti líka drjúgan þátt í afnámi aðskilnaðarstefnunnar í Suður- Afríku. Og skyldi hann ekki hafa átt sinn þátt í því að hrinda mannréttindahreyfingu sjöunda áratugarins af stað með séra Martin Luther King í broddi fylkingar? Móse leiddi þjóð sína brott úr þrældómi í Egyptalandi. Það hefur heldur betur verið handagangur í öskjunni þegar Ísraelsmenn voru að forða sér undan Egyptum, þeir höfðu ekki fyrr lokið hinni fyrstu páskamáltíð sinni en faraó lét undan og leyfði þeim að fara úr landi. En leiðin var ekki bein og breið til fyrirheitna landsins heldur lá hún um Rauða hafið og það vissi faraó. Þess vegna hafði hann líf Ísraelsmanna í hendi sér að eigin áliti þegar honum snerist hugur og lét menn sína fara á eftir Ísraelsmönnum til sjávar. Við þekkjum þessa sögu, sem hefur á sér goðsagnarkenndan svip, hvernig skýstólpinn lýsir fólkinu um nóttina og hvernig Móse réttir út stafinn svo að hafið opnast og fólkið gengur yfir nánast þurrum fótum en Egyptar farast þegar göngin gegnum hafið lokast aftur. Hin útvalda þjóð er hólpin. Þetta er saga um lausn Ísraelsmanna úr viðjum kúgarans, um það hvernig hið ómögulega getur gerst. Einmitt þessi saga hefur hvað eftir annað breytt heiminum. Páskar Gyðinga eru ein mikilvæg forsenda til að skilja merkingu páska okkar kristinna manna og þar með aðra sögu sem hefur ekki síður átt sinn þátt í að breyta heiminum. Engin hátíð kristinna manna er eins nátengd hátíðum Gyðinga og páskarnir. Og þeir eru hápunktur kirkjuársins. Hætt er við að boðskapur þeirra fari fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum hafi þeir ekki innsýn í hina gyðinglegu forsögu. Ýmist er hann misskilinn sem boðskapur um vorið: sumarið leysir lífríkið úr viðjum vetrarkuldans. Eða hann er túlkaður einhliða sem lausn úr viðjum dauðans: sigurhátíð þeirrar trúar að dauðir rísi upp úr gröfum sínum. Í páskaboðskap kristinna manna segir frá konum sem koma á páskadagsmorgun "til að líta á gröfina" eins og Mattheus segir, hann segir að þær hafi verið tvær og báðar heitið María. Og þegar þær eru þarna koma náttúruöflin aftur inn í atburðarásina. Nú er það ekki hafið heldur jarðskjálfti og steinninn þungi veltur frá gröfinni en engill sest ofan á hann og segir við konurnar: "Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann." Konurnar fá allt í einu óvænt hlutverk, þær eiga að fara til Galíleu. Reyndar er tvisvar minnst á Galíleu í textanum þótt stuttur sé. Galílea var alþjóðlegt landsvæði, ekki heilagur staður eins og Jerúsalem heldur svæði þar sem allra þjóða fólk var saman komið, eins konar smækkuð mynd af heiminum í þá daga, þarna var fólk hvaðanæva að, líkt og í sumum borgum við Miðjarðarhafið á þeim tímum. Þarna áttu konurnar að eiga stefnumót við Jesúm: úti í heiminum, fjarri hinum helgu stöðum. Svonefndar upprisufrásagnir guðspjallanna eru birtingarfrásagnir, þar segir ekki frá því hvernig Jesús reis upp heldur hvernig hann birtist fólki óvænt. Skyndilega var hann mitt á meðal þess og það sem meira var: ný og óvænt lífsvon kviknaði. Hér er komið að hinum tilvistarlega þætti páskaboðskaparins: lausn úr viðjum. Páskanir eru sterkt þema í bókmenntum Austur-Evrópu en einnig í vestrænum bókmenntum, þar á meðal okkar. Eitt dæmi er að finna í ljóðinu Vatnsberinn sárþyrsti eftir Sigurð Pálsson, um hina óvæntu lífsvon, það hefst á þessa leið: Einhvern tíma milli nætur og dags eða dags og nætur kemur hann til okkar alveg óvænt Vatnsberinn sárþyrsti Kemur hann á líðandi stundu ...
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: