Lífsins hátíð

Tuttugasta öldin er senn kveður, færði mannkyni framfarir sem eiga engan sinn líka í gjörvallri sögunni. Við fljúgum heimshorna á milli á einu dægri. Við sitjum fyrir framan sjónvarpsskjá í stofunni okkar ­ á ströndu hins yzta hafs ­ og horfum á atburði hinum megin á jarðarkringlunni á sama tíma og þeir gerast. Við horfðum á þessum sama skjá á samtímamann okkar stíga fæti á tunglið. Við setjumst við tölvuna okkar eða tökum upp gemsann okkar og skiptumst á skoðunum við viðmælendur í Ástralíu, Afríku og á Suðurskautslandinu! Framfarirnar í fjarskipta-, heilbrigðis- og samgöngumálum og gjörvöllum öðrum málum, sem mynda rammann um mannlífið, eru ótrúlegar ­ en veruleiki engu að síður.

Tæknin hefur gert okkur kleift að gjörnýta auðlindir jarðar, sem forsjónin hefur lagt okkur upp í hendur til framfærslu og varðveizlu, jafnvel ofnýta þær í sumum tilfellum. Lífskjör okkar eru allt önnur og betri en áa okkar. Við lifum áratugum lengur en þeir! En hvað um okkar innri mann? Hafa framfarirnar hið innra með okkur, í hugarheimi okkar, í breytni þjóðar við þjóðir og manna við menn haldizt í hendur við hinar ytri framfarir? Eru ekki í farteski 20. aldarinnar, tækni- og vísindaaldar, tvær heimsstyrjaldir, "helför" brúnna og rauðra öfga, óteljandi staðbundin stríð, hryðjuverk, hungurdauði milljóna fólks, hrikalegur eiturlyfjavandi o.s.frv. o.s.frv.? Píslarganga Krits, krossfesting og upprisa, sem heyrir til páskum að hugleiða, minna okkur ónotalega á, að breyskleiki manna er engu minni á öld tækni og vísinda, sem við nú lifum, en þá er krossinn var reistur á Golgata. Hversu víða í sögu 20. aldarinnar sjáum við ekki dómarana og valdsmennina, sem dæmdu Krist, hermennina sem pyntuðu hann og múginn sem heimtaði Barrabas lausan? Hefur ekki mannkindin á öllum öldum krossfest kærleikshugsjón Krists ­ oft og mörgum sinnum? Heimsmynd samtímans, staðbundin stríð, milljónir flóttamanna, sjúk og sveltandi börn vanþróaðra ríkja, mengun náttúru og umhverfis og margs konar fordómar í garð náungans eru talandi vitnisburður um Hausaskeljahæðir í lok 20. aldar. Það er sem betur fer einnig önnur hlið á tilverunni, hlið fegurðar og kærleika. Samtími okkar speglar einnig hið fagra og jákvæða í veröldinni, sem hvarvetna blasir við ef grannt er gáð. Þar vegur þyngst kærleiksboðskapur kristninnar, sem víða segir til í daglegum samskiptum fólks, ekki sízt þegar óvæntir atburðir og ytri aðstæður kalla á samstöðu fólks og samhjálp. Kærleiksboðskapurinn kemur einnig í ljós í margvíslegu, fjölþjóðlegu menningar- og hjálparstarfi. Minna má á Hjálparstofnun kirkjunnar, Rauða krossinn og fleiri hjálparsamtök. Það fagra og jákvæða í mannheimi rís ávallt upp, til nýs lífs. Það kemur ekki sízt fram þar sem mannshugurinn rís hæst, í vísindum og listum, í læknisfræði og hjálparstarfi, í bókmenntum, hljómlist og myndlist. Páskar eru sigurhátíð lífsins yfir dauðanum, sigurhátíð kærleikans, ljóssins og sannleikans. Það má lesa út úr táknmáli páskanna, sem og annarra kirkjuhátíða, að við eigum að rækta með okkur bjartsýni og jákvætt hugarfar, jákvæð viðhorf, jákvæða afstöðu til umhverfis okkar og samferðafólks. Megi páskasólin skína hið innra með okkur, verða vermireitur fyrir það góða sem í sérhverjum manni býr. Það fer vel á því að enda þennan páskapistil á orðum Sigurbjörns biskups Einarssonar, lokaorðum greinarinnar Páskar í bókinni Haustdreifar: "Þannig er tilveran öll gegnlýst af þeim leyndardómi, sem Jesús Kristur býr yfir, maðurinn eini, sem var Guð á jörð. Og saga hans var úrslitaskref í sigurgöngu þess Guðs, sem ætlar sér að afmá dauðann að eilífu. Páskarnir hans eru eilífgild yfirlýsing, óhagganlegt sigurorð hans: Ég lifi. Og nú er það sælt að hugsa til þess að mega áfram eiga vitund, líf, tilveru um endalausar aldir, sem þó verða aldrei annað en ein eilíf andrá fullkominnar, ólýsanlegrar lífsnautnar í ríki þeirrar elsku, sem braust í gegnum allar víglínur hins illa á páskum. Þá var það stríð unnið, sem markar endanlegar sigur í styrjöldinni, þó að enn sé barist og myrkrið á flótta sínum máttugt og ægilegt. Það er dæmt. Og þá vil ég ekki láta myrkrið eiga mig, dauðans dæmda myrkur. Ég vil játast lífinu. Það er trú, kristin trú, páskatrú, að taka sigur Guðs gildan og láta sigrast af honum, sem hefur lykla dauðans og heljar og lifir um aldir alda."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: