Einkaspæjari í leit að sökudólgum

Skyndibitafæði, einhæfur og of mikill matur, sykur, hvítt hveiti og óhóflegt mjólkurþamb er oft rótin að ýmiss konar krankleika fólks," segir Þorbjörg Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og næringarþerapisti, og bætir við að sökudólgarnir leynist víða. "Líka stundum í meintu hollustufæði eins og grænmeti og ávöxtum."

Tilbúinn áburður og varnarefni, sem í auknum mæli eru notuð í matvælaframleiðslu segir Þorbjörg ræna grænmeti, ávexti, korn og aðrar afurðir mikilvægum vítamínum og steinefnum. Einna alvarlegast finnst henni notkun efna, sem líkjast estrógeni, kvenhormóninu, því það geti haft áhrif á eðlilega hormónastarfsemi kvenna og valdið brjóstakrabbameini. Rannsóknir í Bandaríkjunum og Danmörku bendi einnig til að aukin ófrjósemi karla tengist notkun slíkra efna í matvælaframleiðslu og plastumbúðir. Máli sínu til stuðnings vitnar Þorbjörg í þekkta rannsókn sem dr. Skakkebæk gerði fyrir nokkrum árum. "Hann bar saman sæði úr bændum í Danmörku, sem stunduðu lífrænan búskap og sæði bænda, sem notuðu ólífrænan áburð og aukaefni. Niðurstöðurnar ollu miklu uppnámi í landbúnaðarlandinu, því þær sýndu að bæði sæðismagn og hreyfanleiki frumna var mun meiri hjá þeim fyrrnefndu. Aðrar rannsóknir hafa staðfest niðurstöðurnar og að mínu mati líka gamla málsháttinn um að maðurinn sé það sem hann borðar," segir Þorbjörg og lætur ekki staðar numið. "Við erum öll hlekkir í keðjunni. Eiturefni skaða jafnt menn, dýr og umhverfi." "Matarförðun" Matarförðun nefnir hún rotvarnarefni, litarefni og sætuefni í mat, "... oftast hættuleg heilsunni, en hægt er að forðast þau vegna E-númera sem eru á innihaldsmiðum matvæla með slíkum efnum." Þar sem Þorbjörg hefur búið og starfað í Danmörku í tuttugu ár þekkir hún nokkuð vel til heilsufarssögu þjóðarinnar. Hún kennir breyttri matvælaframleiðslu og breyttu mataræði síðustu áratugina um að þar er nú þriðja hvert barn með ofnæmi, sem lýsir sér einkum í fæðuóþoli, meltingartruflunum, bólgum, astma, exemi og annars konar útbrotum. "Mér finnst læknar, bæði hér og í Danmörku, alltof hallir undir að ávísa á sterakrem og pensilín gegn kvillum af þessu tagi. Mörg einkennanna má minnka og jafnvel lækna með réttu mataræði, bætiefnum, jurtum og smáskammtalækningum." Sem betur fer segir Þorbjörg að almenningur sé í auknum mæli að vakna til vitundar um gæði matvæla. Til marks um það sé mikið úrval af lífrænt ræktuðum afurðum; grænmeti, ávöxtum, mjólkurafurðum, sojamjólk, kjöti og korni, á boðstólum í flestum stórmörkuðum í Danmörku. "Danir geta nánast alls staðar valið á milli lífrænna og "venjulegra" matvæla og verðmunur er ekki jafn mikill og áður tíðkaðist. Hér heima virðist mér gegna öðru máli, a.m.k. veit ég aðeins um eina verslun, þar sem ég er viss um að fá lífrænt ræktaðar afurðir. Kannski eru íslenskir neytendur ekki sér nógu meðvitandi um valdið sem þeir hafa og því ekki nógu kröfuharðir." Þorbjörg segist varla anna öllum þeim sem til hennar leita þær fáu vikur á ári sem hún veitir landanum ráðgjöf í mataræði og hollustu í lífsháttum með tilliti til þess sem hentar hverjum og einum. "Mér virðast danskir og íslenskir kvillar af svipuðum toga," segir hún og upplýsir hvers vegna hún sé fremur í að uppræta þá dönsku. "Ég hef verið með annan fótinn í Danmörku frá því ég var smástelpa, dvaldi oft hjá móðursystur minni í Kaupmannahöfn og á unglingsárunum vann ég þar ýmis störf á sumrin. Þótt ég hefði ung tekið ákvörðun um að læra næringarfræði, prófaði ég eitt og annað áður og var komin með eiginmann og tvö börn þegar ég hóf nám. Ég ferðaðist mikið, bjó um tveggja ára skeið í Alsír, rak síðan lítið tehús í Kaupmannahöfn, þar sem ég matbjó allt sjálf og seldi auk þess íslenskt lýsi og ullarboli á börn. Víðsýni og saga einstaklingsins Mér fannst að ég yrði að afla mér undirstöðuþekkingar fyrir næringarfræðin og þá væri hjúkrunarfræði besti kosturinn og Kaupmannahöfn besti staðurinn," segir Þorbjörg, sem hampaði prófskírteini í fræðunum árið 1989. Sama ár hóf hún nám við Institut for optimal ernæring og útskrifaðist sem næringarþerapisti þremur árum síðar "... ekki næringarfræðingur," ítrekar hún og útskýrir nánar: "Næringarfræðingur er lögverndað starfsheiti, sem þeir einir mega bera sem numið hafa í viðurkenndum skólum þar sem kennt er samkvæmt kenningum læknisfræðinnar. Skólinn sem ég valdi er einkaskóli og byggir aðallega á óhefðbundnum lækningaaðferðum, þótt grunnurinn; lífefnafræðin og sjálf næringarfræðin, séu kennd á hefðbundnum nótum." Hjá Þorbjörgu kom ekki annað til greina en að fara í slíkan skóla, enda telur hún meiri víðsýni ríkja í óhefðbundnum lækningaaðferðum heldur en hefðbundnum. "Þegar heilsan er annars vegar finnst mér frumskilyrði að þekkja bakgrunn þeirra sem til mín leita. Saga fólks frá blautu barnsbeini getur skýrt alls konar heilsuvandamál, sem það á við að stríða síðar á ævinni og helgast oft af samspili líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta. Jafnvel þótt tveir einstaklingar þjáist af sama sjúkdómnum, t.d. krabbameini eða fæðuóþoli, og hafi svipuð einkenni; verki, bólgur eða útbrot, er orsökin sjaldnast sú sama. Engir tveir eru eins eða eiga sér samskonar sögu. Sama meðferð hentar því ekki öllum, en kúnstin er einmitt að finna út hvað gagnast best fyrir hvern og einn. Mér finnst ég stundum vera svolítið eins og einkaspæjari sem gruflar í fortíð fólks til að leysa flókið mál og góma síðan sökudólgana," segir Þorbjörg. Í Colombi Clinic, sem er einkarekin lækningastofa í Birkerod, skammt frá Kaupmannahöfn, hefur Þorbjörg um árabil beitt einkaspæjaraaðferðinni á fólk, sem þangað leitar vegna vanlíðunar af ýmsu tagi. Sjálf býr hún í Espegærde ásamt dönskum eiginmanni sínum og þremur dætrum. "Á stofunni starfar fólk sem er menntað í óhefðbundnum og hefðbundnum lækningum á mismunandi sviðum. Auk næringarþerapíu, sem Þorbjörg hefur á sinni könnu, er boðið upp á margar og ólíkar meðferðir; sálfræðiaðstoð, nudd og svæðisnudd, vöðvaprófun og sérfræðiaðstoð um stoðkerfi svo fátt eitt sé talið. Hjá okkur starfar líka löggildur læknir tvisvar í viku. Við eigum gott samstarf við lækna innan heilbrigðiskerfisins, þeir vísa sjúklingum í auknum mæli til okkar og við til þeirra þegar ástæða er til. Óhefðbundnar lækningar njóta vaxandi viðurkenningar í Danmörku, þótt mér finnist á stundum að þróunin gangi full hægt. Umræðan eykst þó hröðum skrefum og núna kjósa 30% sjúklinga óhefðbundnar lækningaaðferðir fram yfir hefðbundnar. Slíkt hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir læknastéttina og kalla á breyttan hugsunarhátt hjá stéttinni í heild. Markmið okkar á Colombi Clinic er að nýta þekkingu okkar og reynslu til að veita fólki þá meðhöndlun sem því hentar best og leiðbeina því um mögulegar leiðir til betri heilsu." Ekkert hókus pókus Í starfi sínu segir Þorbjörg að ytra útlit fólks komi sér oft á sporið. Til dæmis geti húðlitur, bólur, þurr húð, hold, augu, baugar, neglur og tunga gefið vísbendingu um að líkaminn sé í ójafnvægi. "Þetta er ekkert hókus pókus, bara reynsla og æfing," segir hún hógvær og byrjar að útskýra hvernig hún framkvæmir fyrstu rannsókn sína á sjúklingum eftir að hafa áður skoðað útlit þeirra gaumgæfilega og rakið úr þeim garnirnar um lífsmynstrið fyrr og nú. Og Þorbjörg dregur fram litla glersívalninga, sem hún kallar ambúlur og hver um sig geymir vítamín, kalk, magnesíum, steinefni og önnur efni, sem eru nauðsynleg fyrir líkamann. "Ég skal bara sýna þér aðferðina. Það er ómögulegt að útskýra þetta með orðum," segir hún og bendir á bekk út í horni. "Haltu nú saman baugfingri og þumalfingri á meðan ég þrýsti á ýmsa staði líkamans og reyni um leið að losa takið á fingrunum." Lítið mál framan af, eða þar til allt í einu að fingurnir verða máttvana þegar Þorbjörg, einbeitt á svip, ýtir á vissan stað. Þar leggur hún eina ambúluna, sem síðar kemur í ljós að inniheldur C-vítamín. Í sömu andrá er eins og styrkur komi aftur í fingurna, þeir mætast á ný og þótt Þorbjörg virðist reyna allt hvað af tekur, getur hún ekki stíað þeim í sundur. "Þig vantar C-vítamín, eins og mig grunaði," segir hún ákveðin og útskýrir síðan viðbrögð líkamans við þessari sérkennilegu aðferð. Vöðvaprófun eða kinesiologi, kallar hún hana og segir vöðvana gefa bestu svörun. "Líkaminn veit og man skilaboð. Ég nota aðferðina jafnt til þess að sannreyna kenningar, sem ég, að undangengnu samtali, hef myndað mér um ástæðu krankleikans og jafnframt til að gera mér grein fyrir hvar manneskjan er veikust fyrir. Svörunin greinir ójafnvægi líkamans og gefur m.a vísbendingar um skort á tilteknum næringarefnum." Af þeim nefnir Þorbjörg að oft þjáist fólk vegna skorts á réttum fitusýrum, magnesíum og kalki. Fitusýrur segir hún fást úr kaldpressuðum plöntuolíum og fiskolíu, magnesíum úr ýmsum korntegundum, spergilkáli, soja og mjólk og kalk sé til dæmis hægt að bæta sér upp með höfrum, möndlum, sesamfræjum og sardínum. Gagnstætt mörgum er hún þeirrar skoðunar að mjólk sé bara fyrir kálfa, ekki smábörn, enda sé meltingarkerfi þeirra ekki gert fyrir slíka neyslu í miklum mæli. "Fæðuofnæmi birtist ótrúlega oft í mjólkuróþoli. Þótt Danir drekki að meðaltali hálfan lítra af mjólk á dag þjáist þriðja hver kona og sjötti hver karl af beinþynningu." Rétt fæði og röskleg hreyfing, a.m.k. þrisvar í viku, telur Þorbjörg flestra meina bót. "Einfalt ráð gegn vanlíðan á breytingaskeiði kvenna til dæmis," segir hún og dregur ekki dul á tortryggni sína gagnvart hormónalyfjum, sem sumir læknar mæla eindregið með. "Estrógen eykur hættu á krabbameini og blóðtappa. Inntaka hormóna hefur ekki áhrif á beinþéttni fyrr en að sjö til tíu árum liðnum. Næg ástæða að mínu mati til að hafna slíkum lyfjum, en láta þess í stað af reykingum, kaffi- og kókdrykkju, gefa mataræðinu meiri gaum og hefja reglulega líkamsrækt í einhverri mynd." Heilsuvika í Hveragerði Heilbrigt líf án hormóna er meðal annars á dagskrá heilsuviku kvenna í Hveragerði, sem Þorbjörg stendur fyrir í samstarfi við Ferðaskrifstofuna Landnámu á vori komanda. Sjálf verður hún verkefnisstjóri og hefur með höndum fræðslu sem höfðar til kvenna. "Sólveig Eiríksdóttur, sem jafnan er kennd við Góðan kost, heldur matreiðslunámskeið og matreiðir léttan og hreinsandi mat ofan í mannskapinn. Undir handleiðslu Sigurlínar Guðjónsdóttur iðkum við jóga á hverjum morgni og útreiðartúrar verða fastir liðir á dagskrá. Auk þess eigum við kost á að fara í nudd, leirböð og heita potta. Þetta verður sannkölluð dekurvika fyrir konur, án þess þó að þær fái tækifæri til að leggjast í leti. Einn liður í námskeiðinu er að skora þátttakendur á hólm," segir Þorbjörg íbyggin á svip en bætir snarlega við að tiltækið sé alveg hættulaust, enda verði gætt fyllsta öryggis. "Konur eru hvattar til að yfirstíga óttann. Fara út fyrir sín takmörk, ef svo má að orði komast, með því að taka áhættu; gera eitthvað sem þær hefðu aldrei trúað að þær þyrðu." Þorbjörg viðurkennir að áhættan reyni á líkamlegt atgervi og markmiðið sé fyrst og fremst að styrkja sjálfstraustið. Hún upplýsir að í bígerð sé að bjóða nokkur námskeið á hverju ári, auglýsa þau á erlendri grund og fá konur hvaðanæva að til að koma og efla heilsu sína, krafta og kjark "...verða hraustari, fallegri og gáfaðri án aukaefna og hormóna," segir hún og bætir við að tími sé kominn til að konur, sérstaklega í erilsömum stjórnunarstöðum, staldri við og hlúi að sjálfum sér. Fæðufíkn og timburmenn Algengustu umkvartanir fólks eru þreyta, meltingarvandamál og höfuðverkur. Þorbjörg hefur óbilandi trú á að oft sé röngu mataræði og hreyfingarleysi um að kenna. "Rangt mataræði og mikið álag veldur sjúkdómum, en rétt mataræði ásamt viðeigandi fæðubótarefnum getur leitt til bata, styrkt ónæmiskerfið og hreinsað út gamlar sýkingar. Aðrir þættir eins og góð andleg heilsa og innsæi gegna líka viðamiklu hlutverki í batanum. Fólki reynist stundum geysilega erfitt að breyta um mataræði og það er oft sérstaklega sólgið í fæðu, sem helst skaðar heilsu þess. Að þessu leyti má líkja sykur-, hveiti-, mjólkur- og ostafíkn við áfengisfíkn. Þrátt fyrir vitneskju um skaðsemina eiga menn til "að detta í það". Þeim líður vel í fyrstu en síðan koma timburmennirnir, sem lýsa sér m.a. í meltingartruflunum, jafnvel dómgreindar- og einbeitingarskorti." Næringarþerapistinn þekkir einkennin af eigin raun og viðurkennir að "detta af og til í hveitið" og þurfa þá að súpa seyðið af hömluleysinu í viku á eftir. "Maður er nú ekki alveg hafinn yfir allar freistingar," segir hún kankvíslega. "Ég er sælkeri og nýt þess að borða góðan mat, sérstaklega ítalskan, þótt ég verði að láta pasta vera. Annars er ég afskaplega vel uppalin. Móðir mín, Inga Guðmundsdóttir, var og er sér mjög meðvitandi um gildi góðrar næringar og lagði mikla áherslu á að við systkinin borðuðum ferskt grænmeti í ríkum mæli. Hún hafði þann háttinn á að gefa okkur eitthvað sætt á eftir. Við kunnum vel að meta þann viðurgjörning, þótt núna sé ég ekki alveg sammála rökunum fyrir slíkri samsetningu. Í þá gömlu, góðu daga var hins vegar nostrað meira við matreiðsluna en nú er gert og skyndibitafæði nánast óþekkt fyrirbæri. Ég er sannfærð um að slá myndi á ýmsa algenga kvilla ef fólk gæfi sér meiri tíma við innkaup, veldi lífrænt ræktaðar afurðir umfram aðrar og legði alúð við matreiðsluna," segir Þorbjörg og tekur til við hádegisverðinn; gulrófur, spergilkál, möndlur, gróft brauð og vatn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: