Japönum mistókst að fá áheyrnarfulltrúa Grænfriðunga útilokaða frá ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) í Adeleide í morgun en það var túlkað sem sigur fyrir málstað Japana er formaður vísindanefndar IWC lýsti því yfir að óhætt væri að hefja hrefnuveiðar undir eftirliti.
Judy Zeh tók undir með Japönum að hrefnustofnar hefðu náð sér og stækkað þann veg að óhætt væri að leyfa veiðar aftur. „Verði hvalveiðar í atvinnuskyni leyfðar aftur samkvæmt endurskoðaðri veiðistjórnun væri hægt að stjórna þeim svo að stofnunum yrði ekki hætta búin," sagði Zeh. Í fréttaskeyti AP-fréttastofunnar segir að ráðið muni ekki greiða atvkæði í þessari viku um hvort leyft verði að hefja hvalveiðar að nýju. Ástralir hyggjast leggja til að Suður-Kyrrahaf verði gert að griðlandi hvala. Nýtur tillagan stuðnings bæði Breta og Bandaríkjamanna en fulltrúar Ástrala viðurkenndu í morgun að hún myndi aldrei ná fram að ganga því hún myndi ekki fá 75% atkvæða eins og tilskilið væri.