Tillaga 10 ríkja undir forystu Svía á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) í Adeleide um að ljúka gerð endurskoðaðs stjórnunarkerfis hvalveiðistofna (RMS) fyrir ársfund IWC í Bretlandi að ári var samþykkt á fundinum í Adeleide í morgun. Þykir með því sem stigið hefði verið eitt skref til viðbótar í átt til þess að hvalveiðar í atvinnuskyni verði hafnar að nýju.
Tillagan, sem m.a. Suður-Afríka, Írland og Mexíkó stóðu að auk Svíþjóðar, kveður á um að hraða skuli textasmíði RMS-skjalsins, sem er upp á fimm síður, og ljúka henni fyrir fund IWC næsta vor. Átök um lagalegan texta þess hefur staðið í áratug. Hinu endurskoðaða stjórnkerfi er m.e. ætlað að ákvarða stærð veiðikvóta og fyrirkomulag veiðieftirlits. Verður það að liggja fyrir í endanlegri mynd áður en hægt verður að ákveða hvort hvalveiðar verði leyfðar að nýju. Aðstoðarráðuneytisstjóri í japanska sjávaraútvegsráðuneytinu, Joji Morishita, sagði samþykktina vera framfaraspor en fulltrúi Ástralíu á fundi IWC sagði að enn væri langur vegur til London og neitaði hann að fallast á að samþykkt tillögunnar táknaði klofning meðal aðildarríkja ráðsins. Fulltrúar umhverfissamtaka, sem fylgjast með fundinum í Adeleide, sögðust hins vegar óttast að úr þessu yrði ekki aftur snúið og hvalveiðar yrðu hafnar að nýju.