Bill Clinton Bandaríkjaforseti gaf yfirlýsingu í vikunni, þar sem hann felur ríkisstjórninni að undirbúa refsiaðgerðir gegn Japan fyrir að brjóta bann Alþjóðahvalveiðiráðsins á veiðum á búrhval og skorureyði. Margrét Björgúlfsdóttir kynnti sér ríkjandi hvalaverndunarsjónarmið í Washington.
Allt frá því að Alþjóðahvalveiðiráðið tók ákvörðun um að banna hvalveiðar árið 1986 hafa Japanar áskilið sér rétt til að stunda veiðar í vísindaskyni. Á þessu ári dró til tíðinda þegar Japanar bættu búrhval og skorureyði við veiðar á hrefnu í vísindaskyni og tilkynntu að þeir ætluðu að leyfa veiðar á 600 hvölum, þar af 440 hrefnum.Bæði búrhvalur og skorureyður eru friðaðar í Bandaríkjunum og búrhvalur er þar að auki á lista yfir tegundir sem taldar eru í útrýmingarhættu. Alþjóðahvalveiðiráðið mótmælti strax þessari ákvörðun Japana og bandarísk yfirvöld hafa reynt ítrekað að telja Japönum hughvarf.
Efitr árangurslausar fortölur, síðast á fundi utanríkisráðherra landanna tveggja, Madeleine Albright og Yohei Kono, í New York, þann 11. september, tóku bandarísk stjórnvöld þá ákvörðun að beita Japan refsiákvæðum samkvæmt heimild í bandarískum fiskverndunarlögum (frá 1967 og 1978). Þar er kveðið á um refsiaðgerðir gegn ríkjum sem vanvirða samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins til verndar hvalastofnum. Þessi lagabreyting er almennt þekkt undir nafninu "Pelly Amendment". Samkvæmt lögunum ber Bandaríkjaforseta að skila skýrslu til þingsins um fyrirhugaðar áætlanir innan 60 daga frá því að umrædd ákvörðun er tekin.
Bandaríkjanna og John Podesta starfsmannastjóri Hvíta hússins hugsanlegar aðgerðir gegn Japan. Bandaríkjamenn eru almennt á móti hvalveiðum og fulltrúar stjórnvalda spöruðu ekki orðin á blaðamannafundinum. Mineta sagði að hvalveiðar Japana í vísindaskyni væru til þess gerðar að sjá veitingastöðum og sælkerabúðum fyrir eftirsóttu hvalkjöti og að hann óttaðist að þær væru undanfari veiða í atvinnuskyni. Mineta bætti því við að samkvæmt tillögum hans hefði Clinton fyrirskipað að Japan gæti ekki öðlast réttindi til fiskveiðiheimilda innan
bandarískrar fiskveiðilögsögu. En Bandaríkjamenn ætla, í fyrsta sinn í áratug, að veita erlendum skipum heimild til veiða á makríl og síld í haust. Japan er því komið í þá stöðu að vera eina landið sem ekki getur sótt um slíkan kvóta. Viðkomandi ráðuneytum hefur ennfremur verið falið að rannsaka hvernig hugsanlegum refsiaðgerðum, þar með taldar viðskiptaþvinganir, verði best háttað.
Bandaríkjmenn hafa tvisvar áður gripið til Pelly lagaákvæðanna gegn Japan, án þess þó að beita landið refsiaðgerðum. Fyrra skiptið var árið 1988, í stjórnartíð Ronald Reagans þegar Japanar hófu hvalveiðar í vísindaskyni og það seinna var 1995, þegar Japanir bættu við fyrirfram ákveðinn kvóta sinn. Í báðum tilfellum voru viðskiptaþvinganir íhugaðar, en fallið frá þeim áætlunum og valið að halda áfram að beita Japana þrýstingi til að hætta veiðum. Embættismenn leggja áherslu á að nú sé full alvara á bak við ákvörðunina. Podesta sagði á fundinum að þó samskipti Bandaríkjanna við Japan væru áfram mikilvæg, hefðu bandarísk stjórnvöld "tekið þessa ákvörðun af fullri alvöru og að vandlega íhuguðu máli".
Aðspurður um tímasetningu yfirlýsingar Clintons (kosningar eru í nánd og husanlega gæti málið hjálpað Al Gore varaforseta og forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins) sagði heimildarmaður Morgunblaðsins að þetta ferli hefði hafist fyrir mörgum mánuðum síðan og að stjórnvöld hefðu þrýst á Japan að hætta við fyrirhugaðar veiðar með ýmsu móti. Bandaríkjamenn hafa þegar afboðað þátttöku í tveimur umhverfisverndarfundum í Japan og aflýst árlegum fiskveiðisamráðsfundum landanna tveggja. Þar að auki hafa bandarísk stjórnvöld lýst sig mótfallin því að Japan verði gestgjafi fundar Alþjóðahvalveiðiráðsins í janúar á næsta ári. Embættismaðurinn ítrekaði einnig að aðgerðirnar nytu stuðnings beggja flokka á Bandaríkjaþingi. Hann benti á að Japan hefði tvisvar áður verið beitt þessu lagaákvæði; í fyrra skiptið í stjórnartíð repúblikana.
Japönsk stjórnvöld hafa brugðist hart við og hóta að fara með málið fyrir Heimsviðskiptastofnunina (WTO) í Genf, ef Bandaríkin grípa til einhliða viðskiptaþvingana og segja ennfremur að slíkt muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir milliríkjaviðskipti þjóðanna. Þó svo að fyrirhugaðar aðgerðir hafi takmörkuð áhrif að svo komnu máli, sendi japanska sendiráðið í Washington út fréttatilkynningu í gær, þar sem Japanar segjast ætla að bregðast við alþjóðlegum mótmælum og takmarka hvalveiðar í vísindaskyni við 100 hvali í ár. Japanar hafa þó ekki breytt afstöðu sinni til Alþjóðahvalveiðiráðsins um að þar séu sjónarmið náttúruverndarsinna ríkjandi og landa eins og Bretlands og Bandaríkjanna, sem eru mótfallin öllum hvalveiðum, algjörlega óháð því hvort hvalategundir séu í útrýmingarhættu eður ei.
Í samtali við Morgunblaðið, sagðist fulltrúi í sendiráði Japana harma aðgerðir Bandaríkjamanna, sem væru byggðar á misskilningi. Hann sagði að til hefði staðið að veiða 100 hrefnur, 50 skorureyðar og 10 búrhvali í ár, en nú yrði veiðitíminn styttur og einungis 100 hvalir veiddir í allt. Japanar hafa veitt í eigin fiskveiðilögsögu og á alþjóðlegum hafsvæðum suður af Kamtsjatka. Öll veiðin er nýtt í samræmi við ákvarðanir Alþjóðahvalveiðiráðsins og seld á markað. Sendifulltrúinn vildi koma því á framfæri að samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðahvalveiðiráðinu væri hrefnustofninn 225.000 dýr, búrhvalir eru áætlaðir 102.000 og skorureyðar 22.000, hér væri því engin hætta á ferðum. Japanar telja ennfremur að athæfi Bandaríkjastjórnar muni ekki hjálpa við lausn málsins, til þess þurfi uppbyggilegar viðræður á opnum grundvelli.
Clinton sagði til að mynda í yfirlýsingu sinni að hann "vonaðist til að þau skref sem stigin eru í dag [13.september] verði til þess að Japan endurskoði afstöðu sína".
Embættismenn segja að á þessu stigi málsins sé ótímabært að ræða um viðbrögð Heimsviðskiptastofnunarinnar og yfirlýsingar Japana um ólögmæti hugsanlegra viðskiptaþvinganna (á grundvelli þess að Bandaríkin flytji ekki inn hvalkjöt) séu til þess fallnar að dreifa athygli frá kjarna málsins. En talsmenn stjórnarinnar leggja áherslu á að skilaboðin séu skýr, stjórnvöld munu grípa til aðgerða gegn löndum sem brjóta alþjóðlegar samþykktir gegn hvalveiðum.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur lýst yfir ánægju með nýlegar fréttir um að Ísland kunni að sækja um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu, eftir áratugar fjarveru. Bandaríkjamenn hafa enda hvatt Íslendinga til að taka aftur sæti í ráðinu áður en þeir taki endanlega ákvörðun um að aflétta banninu við hvalveiðum.
Embættismaður ráðuneytisins staðfesti í samtali við Morgunblaðið að Bandaríkin líti svo á að Alþjóðahvalveiðiráðið sé eina alþjóðlega stofnunin sem hafi yfirráð og umsjón með hvalveiðum. Við þetta er að bæta, að bandarísk yfirvöld ætlast til að öll lönd sem séu að íhuga hvalveiðar geri svo innan vébanda ráðsins og þau vonast til að Íslendingar muni fara að ráðleggingum Alþjóðahvalveiðiráðsins ef þeir ætla sér að hefja veiðar á ný.