Eitt af hvalveiðiskipum Japana kom til hafnar í dag við mikinn fögnuð fulltrúa stjórnvalda sem kæra sig kollótta um gagnrýni erlendra ríkja á hvalveiðar Japana í vísindatilgangi. Nissin Maru, ásamt öðrum skipum í hvalveiðiflotanum, færði 88 hvali til hafnar sem fangaðir og drepnir voru í Norðvestur-Kyrrahafi. Í fyrsta skipti í rúman áratug koma hvalveiðiskip til hafnar í Japan með fleiri tegundir hvala en hrefnu, því nú hafa bæst við búrhvalur og skorureyður.
Bann hefur verið lagt við veiðum á tveimur síðastnefndu tegundunum þar sem þær séu í útrýmingarhættu.