Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins hefst í London 23. júlí nk. og stendur í viku. Ísland tilkynnti inngöngu í ráðið að nýju í byrjun júní sl. en frá því að landið sagði sig úr ráðinu árið 1992 hafa 1-2 fulltrúar Íslands setið ársfundina með áheyrnarrétt. Átta manna sendinefnd fer á ársfundinn fyrir Ísland og formaður hennar er Stefán Ásmundsson, þjóðréttarfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.
Stefán sagði í samtali við Morgunblaðið og nú þegar hefði borist athugasemd frá Ástralíu við inngöngu Íslands í ráðið og vænta mætti fleiri athugasemda frá aðildarríkjum innan ráðsins sem teljast til hörðustu hvalfriðunarríkja. Stefán sagði þessar athugasemdir ekki geta komið í veg fyrir inngöngu Íslands í ráðið, þær væru meira settar fram formsins vegna og hefðu að sínu mati ekki lagastoð. Auk Stefáns eru í sendinefndinni frá stjórnvöldum þeir Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri, Eiður Guðnason sendiherra, Albert Jónsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, Tómas Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu, og Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, sem nú situr fund vísindanefndar ráðsins í London. Stefán og Þórður fara með atkvæðisrétt Íslendinga. Þá eru í sendinefndinni tveir fulltrúar hagsmunaaðila, þeir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, og Jón Gunnarsson, formaður Sjávarnytja.