Íslendingar hyggjast hunsa alþjóðlegt bann við hvalveiðum og hefja veiðar í atvinnuskyni á ný, segir í frétt sem AP-fréttastofan sendi fyrir nokkrum mínútum út og skrifuð er af fréttaritara stofunnar hér á landi. Þar er haft eftir Stefáni Ásmundssyni, þjóðréttarfræðingi í sjávarútvegsráðuneytinu og formanni íslensku sendinefndarinnar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hefst í London á mánudag, að hann muni lýsa því yfir fyrir Íslands hönd á fundinum að hrefnustofninn við Ísland og stofnar reyðarhvela séu í það góðu ásigkomulagi að óhætt sé að hefja veiðar úr þeim.
Ákvörðun byggð á vísindalegum forsendum„Þegar hvalveiðar hefjast á ný munum við veiða úr stofnum sem eru í mjög góðu ásigkomulagi. Ákvörðun um hvenær veiðar verða hafnar verður byggð á vísindalegum forsendum um að viðhalda megi stofnunum," hefur AP-fréttastofan eftir Stefáni. Íslendingar hættu hvalveiðum árið 1986 og gengu árið 1992 úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Íslendingar gengu síðan aftur í ráðið í júní sl. m.a. með þeim rökum „að stuðningur sé að aukast við að sjálfbærar hvalveiðar verði stundaðar með einhverjum hætti", að því er fram kom í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins. Í frétt AP er ennfremur rætt við Guðjón Guðmundsson alþingismann. „Án efa munu Íslendingar hefja hvalveiðar á ný og selja hvalafurðir erlendis," sagði hann. Guðjón sagði ennfremur að hvalir „éti meiri fisk á ári en Íslendingar" og lýsir yfir áhyggjum af þróun mála. Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegsráðuneytinu er stór hluti sendinefndarinnar kominn á fundarstað en núna fer fram undirbúningsvinna fyrir fundinn auk þess sem vísindanefndarfundir fara fram núna. Aðalfundurinn sjálfur hefst á mánudag. Sendinefnd Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu: Formaður er eins og áður segir Stefán Ásmundsson, þjóðréttarfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu, og varaformaður Þórður Ásgeirsson Fiskistofustjóri. Fyrir hönd utanríkisráðuneytisins sitja í nefndinni Eiður Guðnason og Tómas Heiðar, fyrir hönd forsætisráðuneytisins Albert Jónsson og fyrir hönd sjávarútvegsráðuneytisins Heiðar Ásberg Atlason og Jón Gunnarsson. Fulltúi vísindamanna er Gísli Víkingsson. Kristján Loftsson situr í nefndinni fyrir hönd Hvals hf.