Sjávarútvegsráðherra reiður Finnum og Svíum

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra lýsti vonbrigðum með afstöðu Svía og …
Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra lýsti vonbrigðum með afstöðu Svía og Finna til inngöngu Íslendinga í Alþjóðahvalveiðiráðið. mbl.is/Arnaldur

Árni M. Mat­hiesen, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, lýsti von­brigðum með fram­göngu Finna og Svía á fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins í dag, en þeir gengu til liðs við þjóðir sem höfnuðu aðild Íslands að ráðinu með þeim fyr­ir­vara sem gerður var við inn­göng­una af hálfu Íslend­inga.

Árni M. Mathiesen sagði að utanríkisráðherra hefði rætt þessi mál við starfsbræður sína í Svíþjóð og Finnlandi fyrir ársfundinn og ekki hefði verið annað að skilja á viðbrögðum þaðan að skilningur væri á málstað Íslendinga. Árni sagði það sigur að fulltrúar ríkja eins og Frakklands, Austurríkis og Sviss hafi ákveðið að styðja Íslendinga þótt þessi ríki væru andvíg hvalveiðum. Hins vegar væru það mikil vonbrigði að Finnland og Svíþjóð skuli skipa sér á bekk með öfgasinnuðum ríkjum, sagði ráðherra. Árni sagði að lögformlega breytti niðurstaða atkvæðagreiðslunnar, þar sem 19 atkvæði greiddu atkvæði gegn fyrirvarandum en 18 voru honum meðmælt, engu. Ákvörðun formannsins og atkvæðagreiðsla um hæfi ráðsins til að taka svona ákvörðun væri ólögleg. Þá gæti Alþjóðahvalveiðiráðið ekki yfirtekið fullveldisrétt ríkja sem höfðu samþykkt fyrirvara Íslendinga við inngöngu í ráðið, s.s. Noregs og Japans. Árni sagði að búist hefði verið við stuðningi frá Sviss. Því þótt landið væri á móti hvalveiðum væru fulltrúar þess þekktir fyrir að fara að lögum. Þægilega á óvart kæmi að bæði Frakkar og Austurríkismenn skyldu styðja Íslendinga í þessum lögfræðilegu- og þjóðréttarlegu álitaefnum.
mbl.is