Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins hafnaði í gær aðild Íslands að ráðinu vegna þess fyrirvara Íslands að það sé ekki samþykkt fyrri ákvörðun ráðsins um að leyfa engar hvalveiðar í hagnaðarskyni. Áður höfðu verið greidd atkvæði um það hvort ráðið gæti greitt atkvæði á þennan hátt og féllu atkvæði þá að 19 ríki töldu ráðið hafa rétt til atkvæðagreiðslunnar en 18 töldu svo ekki vera. Eitt ríki, Austurríki, tók ekki þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Að þessu loknu bauð formaður ráðsins Íslendingum sæti á ársfundinum án atkvæðaréttar. Íslenska sendinefndin taldi það algjörlega óviðunandi, og lítur á sig sem fullgildan aðila að ráðinu, þrátt fyrir atkvæðagreiðsluna.
Þetta mál var kynnt fjölmiðlum á blaðamannafundi í sjávarútvegsráðuneytinu í gær, en fundurinn var í beinu símasambandi við formann sendinefndar Íslands á fundinum. Þar rakti Stefán Ásmundsson gang mála á ársfundinum í gærmorgun:
"Eftir að við höfðum flutt framsögu okkar eins og önnur ný aðildarríki, kom að dagskrárlið sem fjallaði um skipulag fundarins lögðu Ástralía og Bandaríkin fram sameiginlega tillögu, sem gekk út á það að Hvalveiðiráðið myndi ekki samþykkja fyrirvara Íslands við inngönguna," sagði Stefán.
Um þessa tillögu urðu miklar deilur, sem grundvölluðust á því að Hvalveiðiráðið sem slíkt hefði hæfni til að taka slíka ákvörðun, það væri réttur einstakra ríkja en ekki ráðsins hvort þau samþykktu eða höfnuðu fyrirvaranum. Með atkvæðagreiðslu sem þessari væri ráðið að taka fullveldisréttindi aðildarríkjanna af þeim. Formaður ráðsins skar svo úr um það að ráðið hefði hæfni til að greiða atkvæði með þessum hætti. Fjölmörg ríki neituðu að samþykkja þessa ákvörðun formannsins, en þá var ákveðið að kjósa um það hvort hún stæðist.
Að því loknu var gengið til kosninga um að hafna fyrirvara Íslands. Sömu 19 ríkin greiddu því atkvæði, þrjú sátu hjá og 16 greiddu ekki atkvæði í mótmælaskyni."
Stefán sagði að hörðustu andstæðingar hvalveiða hefðu greitt atkvæði gegn aðild Íslands með fyrirvaranum, en ýmis ríki andstæð hvalveiðum hefðu greitt atkvæði með Íslandi, þar sem þau hefðu komizt að þeirri niðurstöðu að þessi leið væri ekki rétt og meðal þeirra hefðu verið Frakkland og Sviss.
Eftirtalin ríki greiddu atkvæði með því að Alþjóðahvalveiðiráðið gæti greitt atkvæði um aðild Íslands með fyrirvara: Argentína, Ástralía, Bandaríkin, Bretland, Brazilía, Chile, Finnland, Holland, Indland, Írland, Ítalía, Mexíkó, Mónakó, Nýja-Sjáland, Oman, Suður-Afríka, Spánn, Svíþjóð og Þýzkaland.
Atkvæði á móti greiddu: Antigua og Barbuda, Danmörk, Dóminíkanska lýðveldið, Frakkland, Gínea, Grenada, Ísland, Japan, Kína, Kórea, Marokkó, Noregur, Panama, Sviss, Salómonseyjar, St. Vincent, St. Kitts og Nevis og St. Lucia. Austurríki greiddi ekki atkvæði.
Við síðari atkvæðagreiðsluna greiddu sömu 19 ríkin atkvæði með, 16 tóku ekki þátt þar sem þau töldu atkvæðagreiðsluna ólögmæta og þrjú sátu hjá: Austurríki, Frakkland og Sviss.
Fyrir þessa atkvæðagreiðslu höfðu nokkur ríki samþykkt inngöngu Íslands með fyrirvaranum um hvalveiðibanna, en meðal þeirra voru Japan og Noregur.
Nokkur óvissa var um það um miðjan dag í gær hvað þetta þýddi í raun og veru. Hvort inngöngu Íslands hefði verið hafnað eða ekki. Hvort Ísland væri orðinn lögformlegur aðili að ráðinu gagnvart þeim ríkjum sem hefðu samþykkt fyrirvarann án tillits til atkvæðagreiðslunnar. Þegar ríki samþykkja fyrirvara eins og Ísland gerði nú og Noregur á sínum tíma, þegar landið lýsti sig óbundið af ákvörðun ráðsins um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni, geta þau ríki ekki amazt við veiðum og sölu afurða frá viðkomandi ríki. Hafi fyrirvaranum hins vegar verið mótmælt er ríkið sem mótmælir óbundið af fyrirvaranum og getur lagzt gegn veiðum og lagt hömlur á viðskipti viðkomandi ríkis með hvalaafurðir og jafnvel aðrar afurðir. Það gildir hins vegar ekki ef um veiðar í vísindaskyni er að ræða.