Aðild Íslands með fyrirvara hafnað

Árs­fund­ur Alþjóðahval­veiðiráðsins hafnaði í gær aðild Íslands að ráðinu vegna þess fyr­ir­vara Íslands að það sé ekki samþykkt fyrri ákvörðun ráðsins um að leyfa eng­ar hval­veiðar í hagnaðarskyni. Áður höfðu verið greidd at­kvæði um það hvort ráðið gæti greitt at­kvæði á þenn­an hátt og féllu at­kvæði þá að 19 ríki töldu ráðið hafa rétt til at­kvæðagreiðslunn­ar en 18 töldu svo ekki vera. Eitt ríki, Aust­ur­ríki, tók ekki þátt í þeirri at­kvæðagreiðslu. Að þessu loknu bauð formaður ráðsins Íslend­ing­um sæti á árs­fund­in­um án at­kvæðarétt­ar. Íslenska sendi­nefnd­in taldi það al­gjör­lega óviðun­andi, og lít­ur á sig sem full­gild­an aðila að ráðinu, þrátt fyr­ir at­kvæðagreiðsluna.

Ólög­mæt at­kvæðagreiðsla

Íslendingar telja það ótvírætt samkvæmt lögum og reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins að því sé óheimilt að greiða atkvæði með þessum hætti við fyrirvara sem settir eru við inngöngu ríkja í ráðið. Fjórum sinnum áður hafa ríki gengið í ráðið með fyrirvörum, en þá hefur ekki komið til atkvæðagreiðslu sem þessarar. Formaður íslenzku sendinefndarinnar á ársfundinum, Stefán Ásmundsson, segir að samkvæmt lögum ráðsins sé það réttur hvers og eins ríkis fyrir sig, ýmist að gera fyrirvara við samþykktir eða mótmæla fyrirvörum einstakra ríkja. Sá háttur hafi verið hafður á til þessa og segir hann að það sé mat Íslendinga og fleiri ríkja innan ráðsins að með þessari atkvæðagreiðslu sé verið að taka af ríkjunum rétt þeirra til að taka afstöðu til fyrirvara eins og okkar Íslendinga nú.

Þetta mál var kynnt fjöl­miðlum á blaðamanna­fundi í sjáv­ar­út­vegs­ráðuneyt­inu í gær, en fund­ur­inn var í beinu síma­sam­bandi við formann sendi­nefnd­ar Íslands á fund­in­um. Þar rakti Stefán Ásmunds­son gang mála á árs­fund­in­um í gær­morg­un:

"Eft­ir að við höfðum flutt fram­sögu okk­ar eins og önn­ur ný aðild­ar­ríki, kom að dag­skrárlið sem fjallaði um skipu­lag fund­ar­ins lögðu Ástr­al­ía og Banda­rík­in fram sam­eig­in­lega til­lögu, sem gekk út á það að Hval­veiðiráðið myndi ekki samþykkja fyr­ir­vara Íslands við inn­göng­una," sagði Stefán.

Um þessa til­lögu urðu mikl­ar deil­ur, sem grund­völluðust á því að Hval­veiðiráðið sem slíkt hefði hæfni til að taka slíka ákvörðun, það væri rétt­ur ein­stakra ríkja en ekki ráðsins hvort þau samþykktu eða höfnuðu fyr­ir­var­an­um. Með at­kvæðagreiðslu sem þess­ari væri ráðið að taka full­veld­is­rétt­indi aðild­ar­ríkj­anna af þeim. Formaður ráðsins skar svo úr um það að ráðið hefði hæfni til að greiða at­kvæði með þess­um hætti. Fjöl­mörg ríki neituðu að samþykkja þessa ákvörðun for­manns­ins, en þá var ákveðið að kjósa um það hvort hún stæðist.

Naum­ur meiri­hluti

"Við töldum, og fleiri, að ekki væri rétt að kjósa um það, þar sem ráðið hefði enga hæfni til að greiða atkvæði um fyrirvarann. Niðurstaðan var sú að 19 greiddu atkvæði með því að Alþjóðahvalveiðiráðið gæti greitt atkvæði um aðild Íslands með fyrirvara, en 18 voru á móti.

Að því loknu var gengið til kosn­inga um að hafna fyr­ir­vara Íslands. Sömu 19 rík­in greiddu því at­kvæði, þrjú sátu hjá og 16 greiddu ekki at­kvæði í mót­mæla­skyni."

Stefán sagði að hörðustu and­stæðing­ar hval­veiða hefðu greitt at­kvæði gegn aðild Íslands með fyr­ir­var­an­um, en ýmis ríki and­stæð hval­veiðum hefðu greitt at­kvæði með Íslandi, þar sem þau hefðu komizt að þeirri niður­stöðu að þessi leið væri ekki rétt og meðal þeirra hefðu verið Frakk­land og Sviss.

Eft­ir­tal­in ríki greiddu at­kvæði með því að Alþjóðahval­veiðiráðið gæti greitt at­kvæði um aðild Íslands með fyr­ir­vara: Arg­entína, Ástr­al­ía, Banda­rík­in, Bret­land, Brazil­ía, Chile, Finn­land, Hol­land, Ind­land, Írland, Ítal­ía, Mexí­kó, Mónakó, Nýja-Sjá­land, Oman, Suður-Afr­íka, Spánn, Svíþjóð og Þýzka­land.

At­kvæði á móti greiddu: Antigua og Barbuda, Dan­mörk, Dóm­iník­anska lýðveldið, Frakk­land, Gín­ea, Grenada, Ísland, Jap­an, Kína, Kórea, Mar­okkó, Nor­eg­ur, Panama, Sviss, Salómons­eyj­ar, St. Vincent, St. Kitts og Nevis og St. Lucia. Aust­ur­ríki greiddi ekki at­kvæði.

Við síðari at­kvæðagreiðsluna greiddu sömu 19 rík­in at­kvæði með, 16 tóku ekki þátt þar sem þau töldu at­kvæðagreiðsluna ólög­mæta og þrjú sátu hjá: Aust­ur­ríki, Frakk­land og Sviss.

Fyr­ir þessa at­kvæðagreiðslu höfðu nokk­ur ríki samþykkt inn­göngu Íslands með fyr­ir­var­an­um um hval­veiðibanna, en meðal þeirra voru Jap­an og Nor­eg­ur.

Nokk­ur óvissa var um það um miðjan dag í gær hvað þetta þýddi í raun og veru. Hvort inn­göngu Íslands hefði verið hafnað eða ekki. Hvort Ísland væri orðinn lög­form­leg­ur aðili að ráðinu gagn­vart þeim ríkj­um sem hefðu samþykkt fyr­ir­var­ann án til­lits til at­kvæðagreiðslunn­ar. Þegar ríki samþykkja fyr­ir­vara eins og Ísland gerði nú og Nor­eg­ur á sín­um tíma, þegar landið lýsti sig óbundið af ákvörðun ráðsins um bann við hval­veiðum í at­vinnu­skyni, geta þau ríki ekki amazt við veiðum og sölu afurða frá viðkom­andi ríki. Hafi fyr­ir­var­an­um hins veg­ar verið mót­mælt er ríkið sem mót­mæl­ir óbundið af fyr­ir­var­an­um og get­ur lagzt gegn veiðum og lagt höml­ur á viðskipti viðkom­andi rík­is með hvala­af­urðir og jafn­vel aðrar afurðir. Það gild­ir hins veg­ar ekki ef um veiðar í vís­inda­skyni er að ræða.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: