Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, sendi erlendum fjölmiðlum fréttatilkynningu í dag þar sem hann fjallar um fréttir alþjóðlegu fréttastofanna Reuters og AP þess efnis að Íslendingar séu við það að hefja hvalveiðar.
Í yfirlýsingu sinni segir sjávarútvegsráðherra að fréttir þessara tveggja alþjóðlegu fréttastofa um að Íslendingar séu á þröskuldi þess að hefja hvalveiðar séu ekki nákvæmar. Ráðherra segir að hið rétta sé að Alþingi hafi ákveðið 1998 að hvalveiðar hefjist á ný í framtíðinni en tímasetning þess hafi ekki verið ákveðin og þegar það verði gert verði veiðarnar á sjálfbærum nótum. Ísland sé í fararbroddi í heiminum varðandi fiskveiðistjórnun með sjálfbærum hætti og ekki standi til að stofna þeirri forystu í hættu.