Íslendingar líta á sig sem fullgilt aðildarríki og taka þátt í umræðum og atkvæðagreiðslum á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í London samkvæmt því, að sögn Stefáns Ásmundssonar, þjóðréttarfræðings og formanns íslensku sendinefndarinnar.
Í gær hafnaði ársfundurinn með naumum meirihluta aðild Íslands að ráðinu, vegna þess fyrirvara Íslands að það sé ekki samþykkt fyrri ákvörðun ráðsins um að leyfa engar hvalveiðar í hagnaðarskyni. Í kjölfarið var Íslendingum boðið að vera áheyrnarfulltrúar án atkvæðisréttar. Íslenska sendinefndin taldi það algerlega óviðunandi, "því við lítum á okkur sem fullgilda aðila og fjöldi ríkja er sammála okkur í því", segir Stefán. Í máli hans kemur fram að Ísland er ekki lesið upp í nafnakalli í atkvæðagreiðslum en fulltrúar Íslands tilkynni áður hvernig þeir ætli að kjósa. "Við tökum þátt í umræðum og atkvæðagreiðslum eins og við getum," segir hann og bætir við að í raun sé haldið tvöfalt bókhald yfir atkvæðagreiðslur á fundinum. "Annars vegar um það sem meirhlutinn álítur að sé niðurstaðan og hins vegar um það sem minnihlutinn heldur að sé niðurstaðan," segir hann.
Að sögn Stefáns er ástandið á fundinum mjög ruglingslegt og það geti varla varað lengi. "Við vonum bara að menn leiðrétti þau mistök sem þeir hafa gert," segir hann.
Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir að það séu vissulega vonbrigði með mörg evrópsku ríkin að þau skuli vera svo öfgasinnuð í hvalveiðimálum að þau láti sig ekki varða rétt og rangt. Hann segir að stuðningur Frakklands, Sviss og Austurríkis hafi komið á óvart en mikil vonbrigði hafi verið að Svíþjóð og Finnland skyldu snúast gegn Íslandi.