Á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í London var skipuð nefnd til að kanna kjörbréf Indlands og skilaði hún skýrslu um málið í gærkvöldi, en greint verður frá niðurstöðunni í dag.
Stefán Ásmundsson, þjóðréttarfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu og formaður íslensku sendinefndarinnar, segir að enginn efist um að kjörbréf Indverja séu gild sem slík, en einhver vafi leiki á því hvort viðkomandi menn hafi rétt til að kjósa. Samkvæmt reglum hvalveiðiráðsins getur hvert ríki útnefnt einn aðalfulltrúa og varamann fyrir hann og aðeins þeir mega kjósa. Stefán segir að málið snúist um það hvort Indverjinn, sem kaus á mánudag, hafi haft til þess leyfi.
Stefán segir að ekkert hafi breyst í stöðu Íslands á fundinum. "Við sitjum sem fullgilt aðildarríki og tökum fullan þátt í umræðum en svo er tvöfalt bókhald yfir atkvæðagreiðslur." Hann segir að eftir hverja atkvæðagreiðslu geri hann formanninum grein fyrir að láðst hafi að lesa upp Ísland í nafnakallinu og skýri síðan afstöðu Íslands til viðkomandi máls.
Í gær var lögð fram ályktun þar sem Norðmenn voru gagnrýndir fyrir að stunda hvalveiðar í atvinnuskyni þrátt fyrir að í gildi sé núll-kvóti, sem þeir eru reyndar ekki bundnir af. Þeir voru hvattir til að hætta hvalveiðum en Stefán segir að Ísland hafi stutt Norðmenn eins og önnur ríki sem hlynnt eru hvalveiðum, enda ekkert athugavert við sjálfbærar veiðar.