Vilji er meðal aðildarþjóða Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) til að auðvelda þróunarríkjum að gerast aðili að því, en ársfundi þess í Lundúnum lauk í dag. Á síðasta starfsdeginum var rætt um breytingar á fjárframlagi þjóða til ráðsins til þess að auðvelda þjóðunum inngöngu. Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að engin ákvörðun hefði verið tekin en vinnuhópur væri að störfum og það væri gangur í málinu.
Stefán sagðist í lok ráðstefnunnar hafa lagt áherslu á að Íslendingar teldu sig fullgilda aðildarþjóð, en naumur meirihluti ráðsins bauð Íslendingum að gerast áheyrnarfulltrúar á þinginu því að þau samþykktu ekki fyrirvara Íslands við inngöngu sína í ráðið. Aðspurður sagði Stefán að hann hefði fengið talsverð viðbrögð við ræðu sinni og að mikið hefði verið klappað að henni lokinni. "Ég sagðist hlakka til að hitta fundarmenn að ári liðnu en það er talsverður stuðningur við okkur og langt í frá að Íslendingar séu einir úti í horni. Við ætlum að halda áfram að vinna í okkar málum að fundi loknum og hafa samband við þau ríki sem lögðust gegn okkur og reyna að fá þau til þess að breyta afstöðu sinni." Næsti ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins verður haldinn í Japan að ári. Árið 2003 verður ársfundurinn haldinn í Þýskalandi.