Japanar áforma að skjóta á loft gervihnetti sem nota á til að fylgjast með ferðum hvalastofna. Er gervihnöturinn smíðaður og hannaður á vegum einkaháskóla og er hann hluti af rannsóknarverkefni sem kostar jafnvirði um 275 milljóna króna. Stendur til að japanska geimferðastofnunin muni koma hnettinum á loft í október.
Japönsk stjórnvöld liggja undir ámæli fyrir að leyfa veiðar á hundruð hrefna árlega í vísindaskyni, en stjórnvöld ýmissa annarra ríkja og náttúruverndarsamtök fullyrða að um sé að ræða dulbúnar atvinnuhvalveiðar sem hafi þann tilgang helstan að útvega veitingastöðum hvalkjöt. Háskólinn sem stendur á bak við hvalaskoðunargervihnöttinn fullyrðir hins vegar að hnötturinn sé þáttur í þróun staðsetningartækni og komi hvalveiðunum ekkert við. Hnötturinn verður á braut um jörðu í um 800 km hæð. Hann vegur um 50 kg og mun fylgjast með ferðum hvala sem sendum hefur verið komið fyrir í. Mun hnötturinn mæla staðsetningu hvalanna, dýpið sem þeir eru á og safna ýmsum öðrum upplýsingum, svo sem um hitastig sjávar. Til stendur að koma sendum fyrir í fjölda hvala. Um er að ræða senda með allt að 15 sm löngum títaníumprjónum sem skotið verður í hvalina. Segja vísindamenn að þetta muni ekki valda hvölunum neinum óþægindum þar sem prónarnir nái ekki inn úr spiklaginu.