Hópur 18 aðildarríkja Alþjóða hvalveiðiráðsins hefur sent frá sér áskorun til Japana um að hætta vísindaveiðum á hvölum. Í bréfi sem ríkin 18 hafa sent japönskum stjórnvöldum segir að viðkomandi ríkisstjórn ítreki vilja sinn til að stuðla að verndun hvala og hafni hvalveiðum í atvinnuskyni og aðgerðum sem séu til þess fallnar að grafa undan hvalveiðibanni hvalveiðiráðsins sem sett var árið 1986. Ársfundur ráðsins hefst í Japan 20. maí og vonast Japanar til að fá hvalveiðibanninu hnekkt. Þeir segjast halda fast við vísindaveiðiáætlun sína.
Mexíkó stóð fyrir því að bréfið var sent en undir það skrifa m.a. fulltrúar Ástrala, Bandaríkjamanna, Breta, Frakka, Finna, Hollendinga, Svía og Spánverja.Í bréfinu eru fordæmd áform Japana um að útvíkka vísindaveiðarnar en til stendur að veiða 50 sandreyðar í Norður-Kyrrahafi í sumar. Til þessa hafa Japanar veitt milli 4-500 hrefnur í vísindaskyni ár hvert en í fyrra voru einnig veiddir 50 búrhvalir. „Sem aðildarríki Alþjóða hvalveiðiráðsins líta ríkisstjórnir okkar svo á að aðgerðir Japana séu til þess fallnar að grafa undan valdi ráðsins og eyðileggja þann árangur í verndun hvala sem náðst hefur með áratuga löngu starfi," segir í bréfinu. Japönsk stjórnvöld sögðu í morgun að þau myndu halda fast við vísindaáætlunina. Sendimaður í fiskveiðideild utanríkisráðuneytisins sagði að báðar hliðar gerðu sér grein fyrir því að ágreiningur væri um þetta mál. „Við höfum sagt þeim að við teljum að hvalastofnar séu ekki í hættu og taka eigi ákvarðanir um hvalveiðar á vísindalegum grundvelli," sagði hann.