Japanar segjast ekki hafa í hyggju að hætta hvalveiðum þrátt fyrir að fjöldi þjóða hafi hvatt þá til að hætta vísindaveiðum sínum á hvölum. Þeir segjast halda fast við vísindaveiðar sínar og vonast til að geta aukið veiðarnar frekar en að draga úr þeim. Ársfundur Alþjóða hvalveiðiráðsins hefst í Japan 20. maí.
Bandaríkin, Ástralía og fleir þjóðir innan Alþjóða hvalveiðiráðsins hafa gagnrýnt Japana fyrir hvalveiðar þeirra í vísindaskini. Til þessa hafa Japanar veitt milli 4-500 hrefnur í vísindaskyni ár hvert en í fyrra voru einnig veiddir 50 búrhvalir. Til stendur að útvíkka vísindaveiðarnar og veiða 50 sandreyðar í Norður-Kyrrahafi í sumar.
Búist er við miklum og hörðum umræðum um hvalveiðar Japana á fundinum sem fram fer í Shimonoseki, helsta hvalveiðibæ Japana, síðar í þessum mánuði.