Japanir eru sakaðir um að bjóða vanþróuðum ríkjum þróunaraðstoð í skiptum fyrir atkvæði þeirra í Alþjóðahvalveiðiráðinu til að hnekkja banni við hvalveiðum í atvinnuskyni. Talið er líklegt að tillaga um afnám bannsins verði samþykkt á ársfundi ráðsins hefst í Japan 20. maí nk.
Smáríkin Grænhöfðaeyjar og Benín gengu nýverið í Alþjóðahvalveiðiráðið, örfáum dögum eftir að japanskir ráðamenn höfðu spáð því að banni við hvalveiðum frá árinu 1986, yrði hnekkt á ársfundi ráðsins í Japan. Japanir hafa á undanförnum árum veitt háum fjárhæðum til þróunaraðstoðar til smárra og vanþróaðra ríkja, sem sum hver hafa gengið í Alþjóðahvalveiðiráðið og stutt við bakið á þeim þjóðum sem vilja hefja hvalveiðar að nýju. Japanir hafa barist ötullega fyrir afnámi hvalveiðibannsins en ráðið hefur til þessa ætíð hafnað tillögum þeirra. Nú eru hinsvegar töluverðar líkur á því að banninu verði aflétt á fundi ráðsins í Japan en alls þarf samþykki ¾ aðildarríkjanna til að hnekkja banninu. Talið er að 38 þjóðir innan Aþjóðahvalveiðiráðsins muni lýsa sig fylgjandi hvalveiðum á fundi ráðsins í Japan en 26 á móti.