Elliot Morley sjávarútvegsráðherra Bretlands segist alfarið vera á móti því að Íslendingar fái aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu og geti jafnframt sett fyrirvara við hvalveiðibannið sem tók gildi árið 1986. Morley segir í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að hann telji ekki að hvalveiðibanninu verði aflétt á ársfundi ráðsins sem hefst í næstu viku í Japan.
Íslendingar gengu úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1992 en gerðust að nýju í júní á síðasta ári aðilar að samningi um stjórnun hvalveiða, þó með fyrirvara við ákvæði um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Var tekið fram að fyrirvarinn væri óaðskiljanlegur hluti af aðildarskjalinu. Á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í London á síðasta ári ákvað ráðið með eins atkvæðis meirihluta að það væri bært til að taka ákvörðun um fyrirvara Íslands. Í kjölfarið hafnaði ráðið fyrirvara Íslands og þar með aðild þess að alþjóðasamningum um stjórnun hvalveiða og að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar lýst því yfir að sú ákvörðun sé bæði að efni og formi ólögmæt að þjóðarrétti og ákvörðunin hafi því engin áhrif á stöðu Íslands sem aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ísland var með áheyrnaraðild að ráðinu á ársfundinum í fyrra og atkvæði Íslendinga því ekki talið með.Á fundi um hvalveiðar sem haldin var hér á landi í mars sl. sagðist Árni M. Mathisen sjávarútvegsráðherra líta svo á að Ísland væri fullgildur aðili að ráðinu með fyrirvara við hvalveiðibannið en til að vinna þeirri skoðun fylgi væri verið að vinna að breytingum á fyrirvaranum til að fá hann samþykktan á ársfundi ráðsins í Japan. Af tæknilegum ástæðum þarf Ísland þó að öllum líkindum að sækja á ný um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu á fundinum í Japan.
Morley segir í viðtalinu við BBC að hann telji það óviðunandi að Íslendingar fái aðild að ráðinu með umræddum fyrirvara og Bretar muni berjast gegn endurkomu Íslendinga í ráðið undir slíkum kringumstæðum. Þá sagðist hann telja ólíklegt að Japanar og Norðmenn fái tilskilinn atkvæðafjölda á fundinum til að fá hvalveiðibannið fellt úr gildi. Gabon, Palau, San Marino, Benin og Portugal hafa gengið í hvalveiðiráðið nýlega. Umhverfisverndarsamtök hafa sakað Japana um að kaupa sér atkvæði með því að veita ríkjum fjárhagsstuðning gegn því að þau gangi í ráðið og greiði atkvæði með Japönum en Japanar hafa vísað þessu á bug. Morley sagðist í viðtalinu búast við að ársfundurinn verði erfiður en taka þarf afstöðu til ýmissa tillagna, svo sem tillögu Japana og Norðmanna um að hvalveiðibanninu verði aflétt og tillögu um að komið verði á hvalverndarsvæði í Suður-Atlantshafi og suðurhluta Kyrrahafs. Frétt BBC