Fullri aðild Íslendinga að Hvalveiðiráðinu hafnað

Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar í Japan, og Tómas Heiðar, …
Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar í Japan, og Tómas Heiðar, kynna afstöðu Íslendinga eftir atkvæðagreiðsluna í morgun. AP

Alþjóða hval­veiðiráðið hafnaði í morg­un fullri aðild Íslend­inga að ráðinu en Íslend­ing­ar hafa til­kynnt aðild að ráðinu með fyr­ir­vara við hval­veiðibannið sem ráðið samþykti 1986. Árs­fund­ur hval­veiðiráðsins hófst í Jap­an í morg­un og í upp­hafi fund­ar­ins var samþykkt með 25 at­kvæðum gegn 20 til­laga frá for­manni ráðsins um að Íslend­ing­ar hafi áfram áheyrn­araðild að ráðinu án at­kvæðis­rétt­ar. "Við vilj­um ekki vera í þeirri aðstöðu að vera bund­in af hval­veiðibann­inu um ókomna tíð," sagði Stefán Ásmunds­son, formaður ís­lensku sendi­nefnd­ar­inn­ar í Jap­an, eft­ir at­kvæðagreiðsluna.

"Þetta er mikið áfall fyrir stuðningsmenn hvalveiða og það kom reyndar á óvart hversu mikill munurinn var," sagði Elliot Morley, sjávarútvegsráðherra Bretlands, sem greiddi atkvæði gegn aðild Íslendinga eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir. "Hefðum við tapað hefði það verið merki þess að stuðningsmenn hvalveiða hefðu augljósan meirihluta og þá hefði atkvæði Íslendinga auðvitað verið þeirra megin." Hann sagði úrslit atkvæðagreiðslunnar þó ekki tryggja það að fundurinn verði átakalaus. "Maður getur ekki fullyrt neitt um fimm þjóða meirihluta," sagði hann.
mbl.is