Tillögur um ný hvalagriðasvæði felldar í Japan

Grænfriðungar komu þessari orðsendingu fyrir á knattspyrnuvelli í Stuttgart í …
Grænfriðungar komu þessari orðsendingu fyrir á knattspyrnuvelli í Stuttgart í morgun. Er þar vísað til þess að úrslit HM í knattspyrnu hefjast í Japan um mánaðamótin og hvatt til að menn hætti hvalveiðum og fari að sparka bolta í staðinn. AP

Tvær til­lög­ur um griðasvæði fyr­ir hvali voru felld­ar á árs­fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins í Jap­an í morg­un. Önnur til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir griðasvæði um­hverf­is nokkr­ar eyj­ur í Suður-Kyrra­hafi og hin ger­ir ráð fyr­ir griðasvæði milli Suður-Am­er­íku og Afr­íku. Þetta er í þriðja skipti sem til­lög­urn­ar eru lagðar fyr­ir árs­fund hval­veiðiráðsins en þær þurfa 2/​3 hluta greiddra at­kvæða til að fá samþykki. Stuðning­ur við þær fer þó vax­andi og að þessu sinni greiddu 24 ríki at­kvæði með griðasvæðunum en 16 voru á móti.

„Í ljósi þess hvar ársfundurinn er haldinn og ýmissa annarra mála hafa tillögurnar notið meiri stuðnings en við gátum búist við," sagði Sandra Lee, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands sem flutti aðra tillöguna ásamt Ástralíu. En atburðir á ársfundinum í morgun undirstrikuðu þá gjá sem er á milli þeirra ríkja sem styðja hvalveiðar og hinna sem eru þeim andvígar. Mesta athygli vakti útganga íslensku sendinefndarinnar sem vildi með því mótmæla afgreiðslu fundarins á aðildarskjali Íslendinga. Um helmingur aðildarríkjanna 48 lítur á hvali sem gáfaðar skepnur í útrýmingarhættu en hinn helmingurin lítur á hvali sem auðlind sem eigi að nýta. „Það á að éta hvali, ekki horfa á þá," sagði Kuniwo Nakamura formaður sendinefndar Kyrrahafseyjarinnar Palau í umræðum á fundinum. Þá sagði Daven Joseph formaður sendinefndar Antigua og Barbuda að öxull umburðarleysis gagnvart þjóðum sem styðja hvalveiðar hrjái Alþjóðahvalveiðiráðið. En Sandra Lee, sem er af ættum frumbyggja Maóra á Nýja-Sjálandi, sagði að margir bæru djúpa virðingu fyrir hvölum. „Sambandið sem við Pólónesar í Kyrrahafinu höfum við hvalinn skiptir líka máli." Umhverfisverndarsamtökin Greenpeace lögðu áherslu á tekjur sem fást af hvalaskoðun og sögðu að slík starfsemi velti um milljarði dala árlega. Japanir sögðust einnig ánægðir með aukinn stuðning við tillögu sem þeir hafa lengi lagt fram um að fjögur strandhéröð í Japan, sem fóru illa út úr hvalveiðibanninu, fái að veiða 50 hrefnur árlega. Tillagan var felld í ár með 21 atkvæði gegn 20 en 3/4 hluta atkvæða þarf til að hún teljist samþykkt.
mbl.is