Japanar fóru fram á það á ársfundi Alþjóða hvalveiðiráðsins í dag að gengið verði til atkvæða um það hvort hvalveiðibanni ráðsins frá árinu 1986 verði aflétt. Engin von er talin til þess að ráðið samþykki að aflétta banninu þar sem þrjá fjórðu hluta atkvæða þarf til að aflétta banninu. Japanar segjast hins vegar hafa sett tillöguna fram til að undirstrika óþolinmæði sína og óánægju með afstöðu ráðsins.
Þá gagnrýndu Japanar Bandaríkjamenn fyrir að fara fram á aukinn hvalveiðikvóta fyrir bandaríska frumbyggja en beiðni Japana um samsvarandi veiðar var hafnað í gær. Bandaríkjamenn hyggjast fara fram á að kvóti bandarískra frumbyggjaa verði aukinn um 60 hvali og segja Japanar það til marks um tvískinnung Bandaríkjamanna sen þeir hafa barist gegn öllum öðrum hvalveiðum. Rússar hafa einng farið fram á að Chukotka ættbálkurinn í norðausturhluta landsins fái að veiða 120 dýr við ströndina.