Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir að útskýringar Bos Fernholms, formanns Alþjóðahvalveiðiráðsins, séu fráleitar. "Auðvitað þarf maðurinn einhvern veginn að réttlæta framgöngu sína, en það sem hann segir er rangt," segir Árni.
Fernholm sagði, í Morgunblaðinu í gær, að hið nýja aðildarskjal sem Íslendingar lögðu fram hafi efnislega falið í sér sömu fyrirvara og áður. Árni segir það vera rangt.
Hann segir að Íslendingar hafi rétt til að fá inngöngu í ráðið með fyrirvörum. "Aðrir hafa gert það. Þessi málsmeðferð í fyrra hafði aldrei verið viðhöfð hjá ráðinu áður og ekki heldur sú sem við urðum vitni að núna," segir hann.
Árni segir að ekki sé gert ráð fyrir, í samþykktum ráðsins, að aðild þjóða að Alþjóðahvalveiðiráðinu sé háð samþykkt aðildarríkja. "Í flestum samtökum er því þannig farið. Ef fyrirvarinn er ekki í andstöðu við yfirlýst markmið ráðsins er engin ástæða til að fjalla um hann sérstaklega. Markmið Alþjóðahvalveiðiráðsins er að stuðla að sjálfbærum hvalveiðum, ekki að stöðva hvalveiðar. Fyrirvarinn er því ekki í andstöðu við það og þar af leiðandi var ekki ástæða til þessarar málsmeðferðar," segir Árni, "auk þess sem fyrirvarinn er ekki við samninginn sjálfan, heldur viðauka."