Alþjóða hvalveiðiráðið felli í morgun tillögu Rússa og Bandaríkjamanna um hvalveiðar frumbyggjar í Rússlandi og Alaska í annað sinn á tveimur dögum en einungis eitt atkvæði vantaði upp á að tillagan yrði samþykkt.
“Þetta er ósanngjarnasta og illgjarnasta atkvæðagreiðsla sem um getur í sögu ráðsins,” sagði Rolland Schmitten, formaður bandarísku sendinefndarinnar eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir. “Úrslitin koma í raun og veru í veg fyrir að fólk sem lifir við frumstæðar aðstæður geti fætt fjölskyldur sínar.” Japanar og stuðningsríki þeirra, felldu tillöguna í gær í mótmælaskyni við það að tillaga um að leyfa íbúum nokkurra strandhéraða í Japan að veiða 50 hrefnur, náði ekki fram að ganga. Talið var að samkomulag um samþykkt tillögunnar hefði náðst í gær en í viðræðum bak við tjöldi féllust Bandaríkjamenn síðan á að breyta tillögu sinni og draga úr fjölda þeirra dýra sem frumbyggjar fá að veiða á hverju ári. Gegn því ætluðu Bandaríkjamenn að greiða atkvæði með því að St. Vincent og Grenadines í Karíbahafi fái að veiða fjóra hnúfubaka árlega. Japanir greiddu hins vegar aftur atkvæði gegn tillögunni í morgun auk Mongólíu og nokkurra þjóða í Karíbahafi en þrjá fjórðu hluta atkvæða þurfti til að tillagan næði fram að ganga. Búist er við áframhaldandi deilum á fundinum í dag. Ársfundi Alþjóða hvalveiðiráðsins átti að ljúka í dag en harðar deilur hafa dregið dagskrá hans mjög á langinn.